
Helga Hauksdóttir
Helga Hauksdóttir var þekktur fiðluleikari sem lék í áratugi með Sinfóníuhljómsveit Íslands, hún var einnig ötul í félagsmálum tónlistarmanna og kom þar víða við sögu. Þá er fiðluleik hennar jafnframt að heyra á fjölmörgum útgefnum plötum.
Helga Hauksdóttir fæddist sumarið 1941 og hóf snemma að læra á fiðlu en hún var aðeins níu ára gömul þegar hún byrjaði í fiðlunámi hjá Birni Ólafssyni sem var hennar aðal kennari alla tíð í Tónlistarskólanum í Reykjavík, þar fékk hún snemma reynslu með hljómsveit skólans en hún nam jafnframt í Póllandi, Frakklandi og Bandaríkjunum.
Hún var ung farin að koma fram opinberlega sem fiðluleikari og lék t.a.m. í fyrsta sinn einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands aðeins nítján ára gömul en hún var þá enn í menntaskóla. Síðar átti hún eftir að fá fastráðningu við sveitina árið 1968 og leika með henni í þrjátíu ár og kom þá margoft fram með sveitinni sem einleikari. Helga var einnig framarlega í félagsmálum og innan sinfóníuhljómsveitarinnar var hún t.d. formaður starfsmannafélagsins um árabil, og gegndi síðar starfi tónleikastjóra sveitarinnar allt til 2008 – í hennar tíð var ýmsum nýjungum komið á koppinn og t.a.m. fengu rokk- og rapphljómsveitir eins og Quarashi og Botnleðja tækifæri til að koma fram með sinfóníuhljómsveitinni.
Helga lék lengi vel einnig samhliða störfum sínum með Sinfóníuhljómsveit Íslands með hljómsveit Íslensku óperunnar og var reyndar konsertmeistari þeirrar sveitar. Hún lék aukinheldur með fjölmörgum öðrum sveitum s.s. Kammersveit Reykjavíkur þar sem hún lék oftsinnis einleik, en einnig með smærri kammer- og strengjasveitum. Hún hefur auk þess hlotið þann heiður að fá að leika með Æskulýðshljómsveit Norðurlands og World Philharmonic Orchestra.
Leik Helgu má heyra á fjölmörgum plötum auðvitað bæði með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kammersveit Reykjavíkur en einnig á plötum annarra hljómsveita og tónlistarmanna eins og Róberts Arnfinnssonar, Jakobs Frímanns Magnússonar, Sigrúnar Harðardóttur, Olgu Guðrúnar Árnadóttur, Fjórtán Fóstbræðra, Jóhanns G. Jóhannssonar, Heimavarnarliðsins og Sumargleðinnar auk fjölmargra annarra.
Auk þess að sinna félagsmálum innan sinfóníuhljómsveitarinnar starfaði Helga með margvíslegum hætti að öðrum félagsmálum tónlistarmanna, hún var í ýmsum nefndarstörfum innan Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH), var í stjórn Tónlistarbandalags Íslands, í stjórn Samtaka um byggingu tónlistarhúss og í samráðsnefnd verkefnisins Tónlistar fyrir alla.














































