
Henni Rasmus
Lagahöfundurinn Henni Rasmus er þekktastur fyrir hina sígildu dægurlagaperlu Viltu með mér vaka en hann samdi töluvert af lögum og nokkur þeirra voru gefin út á plötu löngu eftir andlát hans.
Henni var fæddur (vorið 1911) og uppalinn í Reykjavík og gekk reyndar fyrstu ár ævi sinnar undir nafninu Sigurður Gunnar Sigurðsson. Þegar hann missti móður sína fimm ára gamall var hann ættleiddur af móðursystur sinni og eiginmanni hennar en sá var þýskur, í kjölfarið hlaut hann nýtt nafn Hendrik Konrad Rasmus en var ætíð kallaður Henni Rasmus.
Henni var má segja af tónlistarættum en þeir Jón Leifs tónskáld voru systkinabörn, hann lærði sem unglingur á píanó hjá Önnu Pjeturs píanóleikara og mun hafa komið eitthvað fram opinberlega, fyrst þrettán ára gamall. Um tvítugt fór hann til Þýskalands í nám í verkfræði, þar dvaldist hann um fjögurra ára skeið eða til 1935 en lauk reyndar aldrei námi því hann hætti í því og sneri sér að tónlistinni. Hann heillaðist af djasstónlistinni í Þýskalandi og lék með þarlendum hljómsveitum og kom svo heim þar sem hann stofnaði eigin hljómsveit sem bar nafnið Blue boys og starfaði á árunum 1935 til 38, sú sveit lék víða um borgina og m.a. í Iðnó, KR-húsinu, Ingólfscafe, Röðli og víðar, líklega einnig um tíma á Hótel Akureyri fyrir norðan. Sveitin telst meðal fyrstu djasshljómsveita sem hér störfuðu en lék einnig almenna danstónlist. Henni lék síðan um tíma með hljómsveitum Guðmundar H. Norðdal og Þóris Jónssonar, hann var tvö sumur norður á Siglufirði og starfrækti síðan ásamt fleirum kabarettflokk sem sýndi í Hafnarfirði og hugsanlega víðar. Hann stundaði skrifstofustörf á Keflavíkurflugvelli á sjötta og sjöunda áratugnum, bjó þá á Suðurnesjunum og lék eitthvað með hljómsveitum þar en mun hafa hætt dansleikjaspilamennsku árið 1958. Hann lék þó líklega eitthvað áfram á píanó undir æfingum og sýningum balletskóla Sigríðar Ármann en það hafði hann gert um margra ára skeið.
Henni varð að hætta að sinna fullu starfi frá og með 1968 en hann hafði þá greinst með Parkison veiki, svo virðist sem hann hafi þá smám saman dregið sig í hlé frá tónlistinni sem píanóundirleikari og lagahöfundur en hann lést árið 1991 áttræður að aldri.

Hendrik sjö ára gamall
Henni Rasmus er eins og segir í upphafi líklega þekktastur fyrir að hafa samið lagið Viltu með mér vaka, sem hefur lifað með Íslendingum í áratugi og lengi vel sem „rútubílasöngur“ – fjölmargt tónlistarfólk hefur gert laginu skil og gefið út á plötum í gegnum tíðina og hér má nefna fáeina og ólíka flytjendur eins og KK & Magnús, Lummurnar, Dægurlagapönksveitina Húfu, Fjórtán Fóstbræður og Hljómsveit Svavars Gests. Lagið var meðal fjögurra laga sem Henni átti í tíu laga úrslitum á Íslensku danslagakvöldi – fyrstu danslagakeppninni sem haldin var hérlendis en hún fór fram á Hótel Íslandi (hinu eldra) haustið 1939, þar voru einnig lögin Manstu, Það var um haustkvöld og Anna-Maja en síðast talda lagið hefur einnig komið út á plötum í nokkur skipti með Berta Möller og Agli Ólafssyni. Þess má geta að Reykjavíkurskáldið Tómas Guðmundsson samdi textann við lagið en vildi svo ekki gangast við því frekar en við lagið um Dagnýju, sem sigraði reyndar áðurnefnda danslagakeppni. Nokkur lög Henna komu út á nótnaheftum á sínum tíma en slíkt tíðkaðist þá.
Árið 2013 var sett saman hljómsveit innan tónlistarskóla FÍH til að leika lög Henna á tónleikum í Salnum í Kópavogi þá um haustið, þessi hljómsveit hlaut heitið Músakk og voru tónleikarnir hljóðritaðir og svo gefnir út á plötu undir yfirskriftinni Viltu með mér vaka. Á plötunni eru tólf lög og sum þeirra höfðu aldrei heyrst áður opinberlega en ekkja Henna hafði varðveitt handskrifaðar nótur eiginmanns síns, sem annars hefðu farið í glatkistuna. Síðasta lag plötunnar var gömul upptaka með hljómsveit Guðmundar Nordal af laginu Running wild, en Henni var píanóleikari þeirrar hljómsveitar – það er líkast til eina upptakan sem til er með píanóleik hans. Með útgáfu þessarar plötu má segja að minningu Henna Rasmus hafi að lokum verið haldið á lofti með viðeigandi hætti, rúmum tveimur áratugum eftir andlát hans. Þess má að lokum geta að á plötunni var einnig að finna eins konar stuðningslag Henna, samið fyrir Ungmennafélagið Breiðablik í Kópavogi (þar sem hann bjó síðari hluta ævi sinnar), það hét einfaldlega Breiðablik og var einnig gefið út á smáskífu með Músakk.














































