
Herdís Hallvarðsdóttir
Herdís Hallvarðsdóttir verður sjálfsagt alla tíð kennd við Grýlurnar en hún hefur þó komið mun víðar við sögu t.d. sem sólólistamaður, laga- og textahöfundur, og bassaleikari og söngvari hljómsveita eins og Hálft í hvoru og Islandica, þá hefur hún einnig staðið í útgáfumálum ásamt eiginmanni sínum Gísla Helgasyni, bæði á tónlist og hljóðbókum.
Herdís er fædd síðsumars 1956 og mun hafa lært á óbó á yngri árum en hefur einnig lært á gítar og bassa en síðast talda hljóðfærið hefur alla tíð verið hennar aðalhljóðfæri, hún þykir einnig ágætur söngvari og söng áður í kórum. Fyrsta hljómsveit Herdísar mun hafa verið í Þrándheimi í Noregi þar sem hún stundaði menntaskólanám en það var svo snemma árs 1981 þegar Ragnhildur Gísladóttir auglýsti eftir meðspilurum í kvennahljómsveit að Herdís sótti um og úr varð hljómsveitin Grýlurnar, sú sveit gerði garðinn heldur betur frægan og hristi vel upp í karltengdum tónlistarheiminum með tónlist sinni og framkomu. Grýlurnar störfuðu í um tvö og hálft ár, sendu frá sér tvær skífur og komu jafnframt við sögu í kvikmynd og á plötu Stuðmanna – Með allt á hreinu, fjölmörg laga sveitarinnar hafa lifað góðu lífi s.s. Sísí, Valur og jarðarberjamaukið hans (Hvað er að ske?), Fljúgum hærra, Ekkert mál og Maó Gling. Sveitin hélt ótal tónleika hér innan lands og utan, og varð öðrum konum hvati til að koma fram á sjónarsviðið með hljómsveitir og tónlist sína.
Herdís hafði glímt við andleg veikindi um tíma og höfðu þau að einhverju leyti átt þátt í að Grýlurnar hættu störfum árið 1983, hún hafði þá í hyggju að leggja bassann að mestu á hilluna og lítið fór fyrir henni rúmlega næsta árið eða svo en þá sótti hún um stöðu bassaleikara í vísna- og þjóðlagasveitinni Hálft í hvoru sem þá hafði skapað sér nokkurt nafn enda sá hún fyrir sér að áreitið og álagið yrði töluvert minna en í Grýlunum. Reyndar mun einn meðlimur sveitarinnar, Gísli Helgason flautuleikari hafa verið lítt hrifinn af því að fá einhvern kvenkyns pönksveitarbassaleikara inn í bandið en svo fór reyndar fljótlega að þau Herdís og Gísli giftu sig. Hálft í hvoru starfaði fram á árið 1988 (reyndar hefur hún aldrei hætt formlega) og gaf út nokkrar plötur en mannabreytingar settu svip á þá sveit alla tíð, Herdís lék á bassa og söng einnig nokkuð með sveitinni.

Grýlan Herdís Hallvarðsdóttir
Auk starfa sinna sem bassaleikari og tónlistarkona hefur Herdís einnig sent frá sér sólóplötur. Haustið 1988 kom út platan Gullfiskar en Hálft í hvoru hafði þá lagt upp laupana í bili og því gafst tóm til plötugerðar en hún samdi sjálf öll lög plötunnar (sem voru frá löngu tímabili) og flesta texta, á þeim tíma sagði hún í blaðaviðtali að hún hefði verið tilbúin með plötu mörgum árum fyrr (áður en hún sló í gegn með Grýlunum) og hún hefði því verið að semja tónlist mjög lengi – hún hafði einnig komið að lagasmíðum með Grýlunum.
Platan Gullfiskar vakti nokkra athygli fyrir gæði tónlistarinnar og ekki síður fyrir textana en þar var nokkuð komið inn á „óþægileg“ mál s.s. sjálfsmorð og andlega geðheilsu. Fjöldinn allur af tónlistarfólki kom við sögu á plötunni og hún hlaut ágæta dóma í Tímanum, Alþýðublaðinu, Þjóðviljanum, Morgunblaðinu, Sjómannablaðinu Víkingi og DV. Hljómsveit (Gullfiskar) var sett á laggirnar til að fylgja plötunni eftir og lék sú sveit nokkuð fram á nýtt ár, 1989.
Ný hljómsveit kom fram á sjónarsviðið árið 1989 og tók í raun við af Hálfu í hvoru enda skipuð að mestu sama mannskap. Sú sveit, sem hlaut nafnið Islandica starfaði að minnsta kosti til ársins 2005 en hefur aldrei – frekar en Hálft í hvoru hætt formlega störfum. Islandica sendi frá sér nokkrar plötur með þjóðlagatónlist og gerði mestmegnis út á erlenda ferðamenn með kynningu á íslenskri þjóðlagahefð. Sveitin lék margsinnis erlendis rétt eins og Hálft í hvoru líka og lék Herdís á bassa og var auk þess í stærra sönghlutverki en hún hafði verið í með Hálfu í hvoru.
Herdís hafði þarna um nokkurra ára skeið starfað nokkuð í útvarpi við dagskrárgerð og var reyndar töluvert áberandi í þjóðfélagsumræðunni t.a.m. með greinaskrifum í dagblöðum. Hún kom töluvert fram ein með Gísla á tónleikum og skemmtunum og starfaði einnig um skamma hríð með sveitum eins og Karma og Teppinu hennar tengdamömmu, á milli þess sem hún lék víða fyrir erlenda ferðamenn með Islandicu. Þá var hún nokkuð að koma fram með Helgu Bryndísi Magnúsdóttur píanóleikara en þær skemmtu víða með hljóðfæraleik og söng. Þess má og geta að Herdís var með lag í undankeppni Eurovision keppninnar árið 1992.

Herdís Hallvarðsdóttir
Islandica starfaði áfram en Herdís starfaði einnig áfram með Gísla eiginmanni sínum og hefur m.a. leikið inn á fjölmargar sólóplötur hans, bæði á bassa og hljómborð en hún hefur einnig leikið inn á plötur annarra listamanna s.s. með Bergþóru Árnadóttur, Graham Smith, Ásthildi Cesil, Vísnavinum o.fl. en hefur aukinheldur staðið í útgáfu platna og annars efnis ásamt Gísla, bæði með útgáfufyrirtækið Fimmund sem og Hljóðbók.is sem sérhæfði sig í útgáfu á hljóðbókum.
Herdís gaf út aðra sólóplötu árið 1998 undir merkjum Fimmundar, sú plata bar titilinn Það sem augað ekki sér og hefur að geyma trúarlega tónlist en hún hafði þá fáeinum árum áður frelsast og hefur reyndar tekið þátt í trúarlegu tónlistarstarfi innan kirkju sinnar og víðar, m.a. með hljómsveitum. Platan vakti ekki eins mikla athygli og sú fyrri en á henni nýtur hún aðstoðar fjölmargra tónlistarmanna.
Síðustu áratugina hefur Herdís mestmegnis staðið í útgáfumálum en hefur sinnt allt öðrum málum einnig, hún útskrifaðist t.a.m. sem leiðsögumaður fyrir nokkru og hefur líklega starfað við það einnig.














































