Hermann Stefánsson [3] (1968-)

Hermann Stefánsson

Hermann Stefánsson er þekktur rithöfundur en eftir hann liggja fjölmargar skáldsögur, smásögur og ljóðabækur auk þýðinga, hann hefur jafnframt fengist nokkuð við tónlist og nokkrar útgáfur liggja eftir hann á því sviði auk þess sem hann hefur starfað með hljómsveitum og gefið út plötur með þeim.

Hermann er Reykvíkingur, fæddur 1968 og er bókmenntafræðingur að mennt og hefur auk hefðbundinna ritstarfa fengist við að skrifa um bókmenntir t.d. sem gagnrýnandi. Hann er að mestu sjálfmenntaður í tónlist og ku leika á flest hljóðfæri en hann lærði lítillega á gítar á yngri árum. Hermann starfaði með einhverjum hljómsveitum á námsárum sínum í Menntaskólanum við Hamrahlíð en upplýsingar um þær eru afar takmarkaðar, árið 1989 kom hann hins vegar við sögu á plötunni 13 tímar og fleiri lög með hljómsveitinni Jón Hallur og Lestir frá Reykjavík en sá Jón Hallur er bróðir Hermanns. Sú sveit (Lestir) hefur einnig sent frá sér plötu með tónlistinni úr Sporvagninum Girnd sem Leikfélag Reykjavíkur setti á svið árið 2004 en þeir félagar sáu þar um tónlistina.

Árið 1993 sendi Hermann frá sér sína fyrstu útgáfu í eigin nafni en það var kassetta sem bar titilinn Blindhæðir, litlar upplýsingar er reyndar að finna um þá útgáfu en tveimur árum síðar kom út önnur kassetta sem hlaut nafnið Ljúflingsmál. Á henni er að finna lög og texta eftir Hermann sem leikur á ýmis hljóðfæri en Jón Hall er þar einnig að finna. Þessar tvær kassettur fengu litla athygli enda var snælduformið ekki beinlínis það heitasta á tíunda áratugnum. Það varð því úr að næsta útgáfa Hermanns (1996) var á geisladiskaformi en þar kallaði hann sig Hermes og titill plötunnar var Súkkulaði og kók eftir einu laganna, nokkur laganna höfðu komið út á Ljúflingsmálum. Súkkulaði og kók hlaut mun meiri athygli en kassetturnar tvær, hún hlaut fremur slaka dóma í Alþýðublaðinu en þeim mun skárri í Morgunblaðinu og DV en platan þótti líða fyrir slakan hljóm. Hermann sá um hljóðfæraleik sjálfur að mestu á þeirri plötu en textarnir vöktu e.t.v. mestu athyglina.

Ekki hafa komið út fleiri plötur í nafni Hermanns en hann hefur hins vegar starfað með hljómsveitum eins og 5tu herdeildinni og Teinum og komið við sögu á plötum þeirra sveita en einnig leikið á plötum hljómsveitarinnar Ríkisins, Gímaldins og Jóns Halls bróður síns, þá hefur hann átt texta einnig á plötum.

Efni á plötum