
Hersveitin árið 1999
Hersveitin var tríó sem lék töluvert á pöbbum og einnig á almennum dansleikjum víða um land en mest þó á höfuðborgarsvæðinu, um og eftir aldamótin.
Sveitin var að hluta til að minnsta kosti skipuð Patreksfirðingum en tveir þriðju sveitarinnar höfðu starfað með sveit á Patreksfirði með sama nafni á níunda áratugnum, það voru þeir Sævar Árnason bassaleikari og Kolbeinn Þorsteinsson söngvari og gítarleikari en þriðji meðlimur tríósins var Sigurður Hannesson trommuleikari.
Hersveitin starfaði að öllum líkindum á árunum 1998 til 2006 en ekki er ljóst hvort það var samfellt eða með hléum, ekki virðast hafa orðið breytingar á skipan hennar en tríóið lék mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu, á stöðum eins og Catalinu í Kópavogi, Grand rokk, Fógetanum, Dubliner og Ásláki í Mosfellsbænum – og reyndar er sveitin í einhverjum heimildum sögð vera úr Mosfellsbænum, líklega er þó um sömu sveit að ræða. Hersveitin lék einnig úti á landi, t.d. á Patreksfirði, Borgarnesi, Akureyri og Keflavík.
Sveitin átti tvö lög á safnplötunni Lagasafnið 7: Tyrkland sem kom út árið 1999 og þar er sveitin skipuð þremenningunum auk þess sem Viðar Aðalsteinsson syngur þar með sveitinni, ekkert bendir þó til þess að hann hafi verið meðlimur Hersveitarinnar.














































