Hljómsveitin Hið borgfirska heimabrugg (einnig nefnd Heimabrugg) var starfrækt í Bakkagerði á Borgarfirði eystra um nokkurra ára skeið á níunda áratug síðustu aldar. Sveitin lék á þeim tíma á flestum skemmtunum og dansleikjum í heimaþorpinu en einnig á þorrablótum og öðrum skemmtunum á Fljótsdalshéraði og víðar á Austfjörðum.
Sveitina skipuðu þeir Ólafur Arngrímsson hljómborðsleikari og Helgi Arngrímsson bassaleikari (ekki bræður) sem voru í Heimabrugginu allan tímann sem hún starfaði, Óðinn G. Óðinsson gítar- og þverflautuleikari sem lék lengst af í sveitinni og Birgir Björnsson harmonikkuleikari sem einnig starfaði lengi með henni. Fyrsta árið sem sveitin starfaði voru bræðurnir Árnþór og Jökull Magnússynir meðlimir hennar og síðustu árin var Helgi Eyjólfsson harmonikkuleikari sveitarinnar.
Hið borgfirska heimabrugg starfaði á árunum 1983 til 1989 en sveitin var svo endurvakin árið 2009 þegar hún lék á minningartónleikum um Helga bassaleikara.














































