Hífum-í, bræður!

Hífum-í, bræður!
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Árnason)

Já, líf okkar sjómanna sæluríkt er.
Híf-í, allir sem einn!
Það bætir hvern mann eins og best sést á mér.
Hífum-í, bræður, allir sem einn!

Í æsku ég hafinu hönd mína gaf.
Híf-í, allir sem einn!
Jamm – og bölvaður hákarlinn beit hana af.
Hífum-í, bræður, allir sem einn!

Ég stundum var hýddur með pompi og prakt
Híf-í, allir sem einn!
og kjöldreginn svo fyrir konungsins makt.
Hífum-í, bræður, allir sem einn!

Í stormi hjá Kúbu varð stórbóman laus
Híf-í, allir sem einn!
og féll síðan beint í minn brothætta haus.
Hífum-í, bræður, allir sem einn!

Í Kína þeir brutu mitt konunganef,
Híf-í, allir sem einn!
og nú er það allt annað nef sem ég hef.
Hífum-í, bræður, allir sem einn!

Við Svalbarða á vetrum oft svalur hann er.
Híf-í, allir sem einn!
Og Þess vegna er bara eitt eyra á mér.
Hífum-í, bræður, allir sem einn!

Og þegar mín löpp hún er lúin og veik;
Híf-í, allir sem einn!
en hin er þó skárri því hún er úr eik.
Hífum-í, bræður, allir sem einn!

Ég kvarta samt ekki þó kaupið sé lágt,
Híf-í, allir sem einn!
því sól skín í heiði og hafið er blátt.
Hífum-í, bræður, allir sem einn!

[m.a. á plötunni Þrjú á palli – … eitt sumar á landinu bláa]