Hin konunglega flugeldarokksveit (1981-83)

Hin konunglega flugeldarokksveit var eins konar pönkhljómsveit sem starfaði um nokkurt skeið á öndverðum níunda áratug síðustu aldar eða rétt um það leyti sem pönkbylgjan stóð yfir hér á landi.

Hin konunglega flugeldarokksveit, sem var úr Breiðholtinu var líklega stofnuð haustið 1981 eða litlu síðar upp úr hljómsveitinni Ekki en fáar heimildir er að finna um sveitina fyrr en um síðla sumars 1982 þegar hún var meðal þátttökusveita í Melarokki, frægum tónleikum. Þar var sveitin skipuð þeim Valdimar Erni Flygenring söngvara og gítarleikara, Ágústi Karlssyni gítarleikara og söngvara, Aðalsteini Ómarssyni bassaleikara, Bryndísi Bragadóttur fiðluleikara (o.fl.) og Erlingi John Mitchison trommuleikara.

Sveitin spilaði eitthvað meira opinberlega um haustið og fljótlega virðist sem bassaleikarinn Hjalti Sigrðsson hafi gengið til liðs við sveitina í stað Aðalsteins og að þá hafi Bryndís fiðluleikari verið horfin á braut. Ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um mannabreytingar í henni. Sveitin kom fram á Þorravöku innan Menntaskólans við Sund snemma árs 1983 en engar upplýsingar er að finna um hversu lengi hún starfaði.

Hin konunglega flugeldarokksveit var endurlífguð í kringum 2020 og sendi þá frá sér efni sem er aðgengilegt á streymisveitum, þar voru þeir Ágúst og Valdimar Örn líklega tveir á ferð.

Efni á plötum