Hjördís Bergsdóttir (1945-)

Hjördís Bergsdóttir

Myndlistarkonan Hjördís Bergsdóttir (Dósla) var á sínum yngri árum virk í starfsemi félagssamtaka eins og Rauðsokka og Vísnavina og kom oft fram á samkomum þeirra með söng og gítarundirleik.

Hjördís Guðný Bergsdóttir er fædd 1945 og það mun hafa verið um miðjan áttunda áratuginn sem hún hóf að koma fram með tónlistaratriði á fundum og skemmtunum Rauðsokka, þar söng hún m.a. frumsamið efni við eigin gítarundirleik og líklega lék hún einnig á gítar undir fjöldasöng á þeim fundum en hún kom jafnframt fram á samkomum Félags herstöðvaandstæðinga og Vísnavina en hún var meðal flytjenda á þremur útgáfum Vísnavina, tveimur kassettum sem komu út árið 1980 (Vísnakvöld 1: sept. – des. 1979 og Vísnakvöld II: 1980) og hljómplötunni Að vísu….: Lög með Vísnavinum, sem kom út árið 1986. Hún myndskreytti jafnframt umslag síðast töldu plötunnar en einnig hafði hún hannað m.a. veggspjöld fyrir Jazzvakningu, hún er einmitt menntuð í myndlist og hefur helgað sig henni síðustu áratugina en lítt haft sig frammi í tónlistinni.

Hjördís er búsett eftir því sem best verður komið í Danmörku í dag.