Hljómsveit Árna Norðfjörð (1956-63)

Harmonikkuleikarinn Árni Norðfjörð var um nokkurra ára skeið á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar með hljómsveit sem virðist þó ekki hafa starfað alveg samfleytt.

Elstu heimildir um Hljómsveit Árna Norðfjörð sem sérhæfði sig í gömlu dönsunum, eru frá því um vorið 1956 þegar sveitin lék á dansleik í Félagsgarði í Kjós en á næstu árum virðist sveitin spila með reglulegu millibili á dansleikjum í Breiðfirðingabúð, Silfurtunglinu, Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði og Góðtemplarahúsinu en þar starfaði Árni einnig sem dansstjóri. Sveitin starfaði að minnsta kosti til sumarsins 1963 en þá lék hún á dansleik tengdum héraðsmóti sem haldið var í Kjósasýslu.

Engar upplýsingar er að finna um hverjir skipuðu Hljómsveit Árna Norðfjörð með honum, og allt eins gæti það hafa verið misjafnt og sveitin jafnframt misstór.