Hljómsveit Árna Scheving (1956-64)

Árni Scheving var með eigin hljómsveit í Klúbbnum um eins og hálfs árs skeið á árunum 1963 og 64 en í nokkur ár á undan hafði hann verið með misstórar hljómsveitir sem litlar upplýsingar er að finna um, sumar hugsanlega settar saman fyrir stakar djassuppákomur.

Þannig var Árni með eitthvað sem kallaðist Tríó Árna Scheving árið 1955 og svo Kvartett Árna Scheving sem poppar reglulega upp í heimildum frá 1956 til 1959 en fyrrnefnda árið kom slíkur kvartett við sögu á tveggja laga plötu Ingibjargar Smith (Draumljóð / Við gengum tvö) – engar upplýsingar er hins vegar að finna um hverjir skipuðu þessar sveitir með Árna né heldur með Kvintett Árna Scheving sem var starfræktur 1962, þó mun Jón Páll Bjarnason gítarleikari hafa starfað með Árna á einhverjum tímapunkti.

Það var svo vorið 1963 sem Árni var með hljómsveit sem var fastráðin í Ítalska salnum í Klúbbnum og virðist það hafa verið tríó sem var skipað þeim Edwin Kaaber gítarleikara og Gretti Björnssyni harmonikkuleikara en sjálfur lék Árni á víbrafón. Cole Porter söng með þessari sveit. Árið 1964 lék sveitin áfram í Klúbbnum og um tíma í aðalsal skemmtistaðarins og þá hafði Rúnar Guðjónsson tekið við söngvarahlutverkinu, ekkert bendir til annars en að sveitin hafi þá verið skipuð sömu meðlimum að öðru leyti. Sveitin hætti störfum um haustið 1964.