Hljómsveit Axels Kristjánssonar (um 1955)

Um miðjan sjötta áratug síðustu aldar var hljómsveit starfrækt í Reykjavík undir stjórn Axels Kristjánssonar og bar hún nafn hans, Hljómsveit Axels Kristjánssonar.

Ekki er alveg ljóst hvenær þessi sveit var nákvæmlega starfandi nema að hún lék í Þórscafé um haustið 1954 en þar var hún fastráðin um skeið, einnig liggur fyrir að hljómsveitin spilaði mikið í samkomuhúsinu Ungó í Keflavík. Upplýsingar um Hljómsveit Axels Kristjánssonar eru af skornum skammti, vitað er að Axel lék á bassa með hljómsveit Björns R. Einarssonar sem stofnuð var í upphafi árs 1954 og var hún einmitt ráðin til að leika í Þórscafé og á Suðurnesjunum og er hér því giskað á að hljómsveit Axels hafi tekið við af þeirri sveit og hafi jafnvel verið stofnuð að einhverju leyti upp úr henni. Auk Axels liggur fyrir að Þorsteinn Eiríksson trommuleikari (Steini Krúpa) var í þessari sveit en ekki eru upplýsingar um aðra meðlimi hennar og er hér með óskað eftir þeim.