Hljómsveit Birgis Arasonar (1987-90 / 2009-17)

Hljómsveit Birgis Arasonar 1986

Eyfirðingurinn Birgir Arason hefur tvívegis starfrækt hljómsveitir í eigin nafni á Akureyri og nágrenni en hann hefur jafnframt starfað með fjölmörgum öðrum sveitum á svæðinu.

Hljómsveit Birgis Arasonar (hin fyrri) var stofnuð sumarið 1987 og starfaði hún um þriggja ára skeið eða þar til Bandamenn voru stofnaðir upp úr henni árið 1990. Meðlimir hljómsveitar Birgis voru í upphafi þeir Rafn Erlendsson trommuleikari, Ólafur Örn Þórðarson hljómborðsleikari, Hlynur Guðmundsson gítarleikari, Erlingur Arason gítarleikari og svo hljómsveitarstjórinn Birgir sem lék á bassa og söng en einnig sungu þeir Rafn og Erlingur.

Hljómsveit Birgis gerði mestmegnis út á ballspilamennsku í heimabyggð, og lék á árshátíðum, þorrablótum og slíkum samkomum einnig, þá lék sveitin á Hótel KEA á Akureyri um skeið. Einhverjar mannabreytingar urðu á skipan sveitarinnar, Húnbogi Valsson gítarleikari og söngvari kom í stað Erlings og árið 1989 tók Friðrik Sigurðsson við trommuleiknum af Rafni, aðrir meðlimir hennar voru þá Ólafur hljómborðsleikari, Hlynur gítarleikari og Birgir.

Hljómsveit Birgis hin síðari tók til starfa á fyrsta áratug nýrrar aldar, heimildir eru um hana frá árinu 2009 en hún gæti þó hafa verið starfandi um tíma þá. Sú sveit starfaði allt til ársins 2017 hið minnsta en því miður er ekki að finna neinar upplýsingar um skipan þeirrar sveitar, Birgir hefur væntanlega verið bassaleikari hennar og söngvari – jafnframt mun þessi sveit hafa leikið mestmegnis yfir vetrartímann og þá á árshátíðum, þorrablótum og slíku.

Óskað er eftir frekari upplýsingum um hljómsveit Birgis hina síðari.