
Hljómsveit Grettis Björnssonar 1961
Harmonikkuleikarinn Grettir Björnsson starfrækti nokkrar hljómsveitir af ýmsum stærðum og gerðum en upplýsingar um þær eru almennt mjög takmarkaðar.
Fyrsta sveitin sem Grettir rak var tríó sem starfaði á árunum 1949 og 50, sú sveit lék m.a. á Keflavíkurflugvelli en einnig á höfuðborgarsvæðinu. Engar upplýsingar er að finna um hverjir skipuðu tríóið með honum.
Næsta sveit Grettis Björnssonar var starfrækt um tveggja ára skeið, stofnuð fyrri hluta árs 1961 en Grettir var þá nýkominn heim frá Kanada eftir um áratugar dvöl þar. Þessi sveit var skipuð auk Grettis þeim Jóni Páli Bjarnasyni gítarleikara, Þórarni Ólafssyni píanóleikara, Guðjóni Inga Sigurðssyni trommuleikara og Árna Egilssyni bassaleikara, hún lék mestmegnis í Klúbbnum og með henni þar söng þýsk söngkona, Margareth Calve um sex vikna skeið vorið 1961. Þessi sveit líklega fram að áramótum 1962-63 og gæti hafa verið tríó undir lokin. Árið 1965 var Grettir svo með hljómsveit sem ýmist var kölluð hljómsveit eða tríó, þessi sveit lék bæði í Klúbbnum en einnig yfir sumartímann á héraðsmótum og almennum dansleikjum á landsbyggðinni. Engar upplýsingar er að finna um liðsskipan hennar.
Svo virðist sem Grettir hafi ekki verið með hljómsveit nú um nokkurra ára skeið en frá og með árinu 1972 og allt fram á tíunda áratug aldarinnar starfrækti hann sveit/ir, sjálfsagt með hléum inni á milli og einnig með mismunandi liðsskipan og stærð. Upplýsingar um þessar sveitir eru vægast sagt takmarkaðar, árið 1982 tók sveit í hans nafni þátt í tónleikahaldi í tilefni af 50 ára afmæli FÍH og hana skipuðu Árni Scheving víbrafónleikari, Edwin Kaaber gítarleikari, Guðmundur Steingrímsson trommuleikari og Helgi E. Kristjánsson bassaleikari auk Grettis en hún gæti hafa verið sett saman gagngert fyrir þá tónleika. Einnig eru heimildir um að Lárus Ólafsson og Marinó Björnsson bassaleikari (bróðir Grettis) hafi einhvern tímann verið í hljómsveit hans en ekki liggur þó fyrir hvenær.
Grettir starfrækti hljómsveitir meira og minna alla tíð og þó að þær hafi ekki endilega verið áberandi í auglýsingum fjölmiðla þá var vettvangur þeirra líklega aðallega árshátíðir, þorrablót og þess konar uppákomur víða um höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina. Eftir miðjan tíunda áratuginn starfrækti hann hljómsveitir innan harmonikkusamfélagsins en hann var eins og vænta má virkur í starfsemi Félags harmonikuunnenda í Reykjavík, allt fram í andlátið 2005. Upplýsingar eru þó afar takmarkaðar um meðlima- og hljóðfæraskipan þeirra sveita eins og reyndar um flestar hljómsveitir Grettis.














































