Hljómsveit Guðmundar Sigurjónssonar (1967-77)

Hljómsveit Guðmundar Sigurjónssonar

Hljómsveit Guðmundar Sigurjónssonar starfaði í um áratug, nokkuð samfleytt af því er virðist en þó gætu hafa verið einhverjar eyður í starfsemi hennar.

Elstu heimildir um hljómsveit í nafni Guðmundar eru frá árinu 1967, fyrstu árin sérhæfði sveitin sig í gömlu dönsunum og er allt eins líklegt að Guðmundur Sigurjónsson hljómsveitarstjórinn hafi sjálfur leikið á harmonikku þá en síðar var hann hljómborðsleikari sveitar sinnar. Fyrir liggur að Halldór Helgason var trommuleikari sveitar Guðmundar í upphafi en engar aðrar upplýsingar er að finna um skipan hennar.

Frá árinu 1971 til vorsins 1977 lék sveitin töluvert – ekki liggur fyrir hverjir skipuðu sveitina lengi vel nema að Rúnar Guðjónsson var söngvari hennar, framan af lék hún mikið í Veitingahúsinu við Lækjarteig, Röðli, Hótel Borg og Hótel Sögu (stutt) og þar virðast gömlu dansarnir hafa fengið nokkurt vægi en sveitin lék einnig eitthvað úti á landsbyggðinni s.s. í Festi í Grindavík, Akranesi og Vestmannaeyjum. Á síðari hluta starfstíma hennar varð sveitin rokkaðri, einkum þegar hún lék í Klúbbnum á árunum 1975 til 76, þá voru meðlimir hennar Guðmundur hljómborðsleikari, Andri Örn Clausen gítarleikari og söngvari, Davíð Geir Gunnarsson trommuleikari og Sigurður Kristjánsson bassaleikari, síðla árs 1975 hafði Ragnar Gíslason gítarleikari tekið við af Andra Erni.

Alls munu ríflega tíu liðsmenn hafa skipað sveitina meðan hún starfaði en hún hætti störfum vorið 1977 eins og fyrr segir.