Hljómsveit Guðmundar Vilbergssonar (1951 / 1953)

Guðmundur Vilbergsson virðist hafa starfrækt hljómsveit – eina eða tvær, laust eftir 1950.

Sú fyrri lék á djasstónleikum árið 1951 og var einnig kölluð Combo Guðmundar Vilbergssonar, hún var skipuð þeim Guðmundi sem lék á trompet, Magnúsi Randrup saxófónleikara, Steinþóri Steingrímssyni píanóleikara, Halli Símonarsyni bassaleikara og Sveini Jóhannssyni trommuleikara en þessi sveit virðist einungis hafa komið fram í þetta eina skipti.

Sumarið 1953 var svo starfrækt hljómsveit undir nafninu Hljómsveit Guðmundar Vilbergssonar en hún lék fyrir gömlu dönsunum á dansleikjum í Góðtemplarahúsinu við Tjörnina. Engar upplýsingar finnast um þessa hljómsveit aðrar en að Guðmundur hljómsveitarstjóri sem í grunninn var trompetleikari, lék líklega á harmonikku í henni. Óskað er eftir frekari upplýsingum um þessa sveit.