Hljómsveit Helga Hermannssonar (1978-)

Tríó Helga Hermannssonar 1979

Tónlistarmaðurinn Helgi Hermannsson hefur átt í samstarfi við fjöldann allan af öðru tónlistarfólki ýmist í dúetta-, tríóa- eða hljómsveitaformi í eigin nafni en í mörgum tilfellum hefur þar verið tjaldað til einnar nætur eins og gengur og gerist.

Helgi var þekktur framan af sem einn meðlimur hljómsveitarinnar Loga frá Vestmannaeyjum en eftir að hann fluttist upp á meginlandið eftir gos hefur hann starfrækt hljómsveitir af ýmsum stærðum, hann var með Tríó Helga Hermannssonar undir lok áttunda áratugarins sem lék á dansleikjum austur í Rangárvallasýslu (1978) en ekki eru tiltækar heimildir um hverjir störfuðu með honum þar, Friðrik Guðni Þórleifsson gæti þó hafa verið í því tríói. Nokkru síðar var hann með tríó ásamt Jónasi Þóri Þórissyni hljómborðsleikara og Einari Sigurfinnssyni söngvara sem kom fram á skemmtunum í Vestmannaeyjum en yfirleitt hefur Helgi sjálfur leikið á gítar og sungið í þessum sveitum, þá eru einnig heimildir um að hann hafi verið með tríó sem skemmtiatriði á árshátíð (1979) ásamt Grétari Björnssyni bassaleikara og Davíð Jóhannssyni gítarleikara en það telst þó e.t.v. ekki til starfandi hljómsveitar. Hljómsveit Helga, Víkingasveitin (1993-2016) starfaði jafnframt á stundum einnig sem tríó. Hljómsveit Helga Hermannssonar var starfandi í kringum 1990 um tveggja ára skeið að minnsta kosti en engar upplýsingar liggja fyrir um stærð þeirrar sveitar, meðlima- eða hljóðfæraskipan, sú sveit lék einkum á árshátíðum, þorrablótum og þess konar skemmtunum og dansleikjum.

Helgi hefur einnig starfað með stökum tónlistarmönnum, hann átti í áralöngu samstarfi við áðurnefndan Jónas Þóri þar sem þeir starfræktu dúó en hann hefur einnig margoft komið fram ásamt bróður sínum Hermanni Inga, þá má einnig nefna samstarf hans við annars vegar Smára Eggertsson og söngkonuna Öldu Ingibergsdóttur.