
Hljómsveit Hótel Heklu
Húshljómsveitir, líklega þrjár eða fjórar talsins störfuðu á Hótel Heklu sem staðsett var við Lækjartorg, í kringum 1930. Upplýsingar um þær sveitir eru þó afar takmarkaðar.
Fyrst virðist hafa starfað hljómsveit á Hótel Heklu árið 1928 en um var að ræða sveit sem lék það sem kallað var kaffihúsatónlist auk þess að leika fyrir dansi á kvöldin, þessi sveit starfandi undir hljómsveitarstjórn Karls Matthíassonar sem hér er giskað á að hafi leikið á harmonikku en aðrir meðlimir sveitarinnar munu hafa verið þeir Bjarni Böðvarsson saxófónleikari, Guðjón Stefánsson [?] og [Holger] Nielsen [fiðluleikari?]. Hugsanlega var Guðlaugur A. Magnússon trompetleikari einnig í þessari sveit.
Veturinn 1929-30 lék hljómsveit á hótelinu sem ýmist var sögð vera kvintett eða sextett og gæti hún hafa verið undir stjórn Poul Bernburg en engar frekari upplýsingar finnast um þá sveit, haustið 1930 hafði ný sveit tekið við keflinu undir stjórn [?] Takacks fiðluleikara – þar var um að ræða tríó sem hafði einnig að geyma Jón Ívarsson [?] og Axel Wold sellóleikara. Um svipað leyti segir heimild frá því að Scheibler kvartettinn hafi leikið á hótelinu, sá kvartett hafði um svipað leyti einnig leikið á Hótel Borg.
Ekki er ólíklegt að Hótel Hekla hafi hætt að bjóða upp á lifandi tónlist þegar Hótel Borg tók til starfa 1930, hafi ekki treyst sér í samkeppni við hið nýja hótel.














































