Hljómsveit var starfrækt á árunum 1938 til 41 undir nafninu Hljómsveit Iðnó en sveitin virðist bæði hafa verið eins konar húshljómsveit Iðnós og um leið leikhússveit Leikfélags Reykjavíkur sem þá hafði aðsetur í húsinu – og lék þá á sýningum leikfélagsins.
Hljómsveit Iðnó kom fyrst fram á sjónarsviðið haustið 1938 þegar hún lék á dansleik í Oddfellow húsinu en hún lék þó nánast einvörðungu í Iðnó (húsi Iðnaðarmannafélags Reykjavíkur við Vonarstræti) næstu árin, sveitin starfaði undir stjórn Fritz Weisshappel og var reyndar einnig stundum kennd við hann en engar upplýsingar er að finna um aðra meðlimi sveitarinnar. Þó liggur fyrir að Sigfús Halldórsson söng einhverju sinni með sveitinni á dansleikjum. Haustið 1941 er ný hljómsveit kynnt til sögunnar í Iðnó (undir sama nafni) en engar upplýsingar er heldur að finna um meðlima- og hljóðfæraskipan henna, hún virðist hafa verið skammlíf.














































