Harmonikkuleikarinn Ingvar Hólmgeirsson starfrækti hljómsveit í eigin nafni um langt árabil innan harmonikkusamfélagsins en hann lék ásamt sveit sinni á dansleikjum og öðrum samkomum innan þess og einnig fyrir eldri borgara.
Elstu heimildir um Hljómsveit Ingvars Hólmgeirssonar eru frá því um haustið 2000 en þá lék sveitin fyrir dansi í Húnabúð í Skeifunni. Á næstu árum á eftir átti sveitin eftir að leika einnig margsinnis í Ásgarði í Glæsibæ en engar upplýsingar er að finna um skipan hennar og hljóðfæraskipan fyrr en árið 2004, þá var í Þorvaldur Skaftason söngvari sveitarinnar og hugsanlega einnig gítarleikari. Nokkrum árum síðar var Sigurður Hannesson einnig meðlimur sveitarinnar en ekki liggur ljóst fyrir hversu lengi hann starfaði með Ingvari.
Hljómsveitin lék í mörg ár á dansleik svokallaðra Kanaríflakkara, sem haldinn var árlega í félagsheimilinu Árnesi í Gnúpverjahreppi en þar var lögð áhersla á gömlu dansana, Kristrún Sigurðardóttir (Rúna) söng með sveitinni þá um tíma, einnig mun söngkona að nafni Anna [?] hafa starfað með sveitinni laust eftir 2010.
Eftir 2012 var hljómsveit Ingvars farin að leika í auknum mæli fyrir eldri borgara í Kópavogi og hugsanlega víðar á höfuðborgarsvæðinu en sveitin mun hafa starfað líklega til ársins 2015.
Óskað er eftir frekari upplýsingum um þessa sveit.














































