Heimildir eru um að minnsta kosti þrjár hljómsveitir sem störfuðu í nafni hljómsveitarstjórans Jóhanns Gunnars Halldórsson, sem störfuðu yfir rúmlega fimmtán ára tímabil.
Fyrsta Hljómsveit Jóhanns Gunnars (eða Hljómsveit Jóhanns G. Halldórssonar) var húshljómsveit í Góðtemplarahúsinu við Tjörnina (Gúttó) árið 1948 og hafði þá starfað um nokkurt skeið – hversu lengi liggur þó ekki fyrir. Sveitin var þá skipuð þeim Jóhanni Gunnari Halldórssyni hljómsveitarstjóra sem lék á harmonikku, Guðna S. Guðnasyni sem einnig var harmonikkuleikari, Ólafi Markússyni fiðluleikara, Guðjóni Pálssyni píanóleikara og Svavari Gests trommuleikara sem þá var tiltölulega nýlega kominn í sveitina, líklega í stað Vilhelms Kristinssonar. Jón Sigurðsson bassaleikari kom svo inn í sveitina um haustið en ekki liggur fyrir hvort hann bættist við eða leysti einhvern annan af hólmi. Seint um haustið hætti Jóhann í sveitinni til að ganga til liðs við Hljómsveit Aage Lorange og tók Jan Morávek við stjórn hljómsveitarinnar.
Svo virðist sem Jóhann hafi starfrækt hljómsveit í eigin nafni aftur árið 1953 en sú sveit starfaði á Akureyri og lék á Hótel KEA, engar upplýsingar er að finna um þessa hljómsveit og allt eins gæti hér verið um allt annan Jóhann að ræða.
Þriðja sveitin sem kennd var við Jóhann Gunnar Halldórsson lék gömlu dansana í Breiðfirðingabúð veturinn 1963 til 64 en engar upplýsingar er heldur að finna um meðlimi þessarar sveitar, þó liggur fyrir að Björn Þorgeirsson var söngvari hennar. Í fáeinum auglýsingum tengdum þessari sveit er talað um „Hljómsveit Jóhanns Gunnarss.“ en þar er líklega um villur að ræða því í sömu miðlum nokkru síðar er sveitin kölluð „Hljómsveit Jóhanns Gunnars“.














































