Hljómsveit Jóns Arngrímssonar (1978-2014)

Tónlistarmaðurinn Jón Ingi Arngrímsson hefur í nokkur skipti sett saman hljómsveitir til að leika við hin og þessi tækifæri s.s. á austanverðu landinu og hafa þær gengið undir nafninu Hljómsveit Jón Arngrímssonar (í einu tilfelli Tríó Jóns Arngrímssonar), svo virðist sem þessar sveitir hafi starfað eftir hentisemi hverju sinni og langt frá því samfleytt.

Fyrsta sveitin sem starfrækt var í nafni Jóns Inga starfaði líklega haustið 1978 en hún lék á árshátíð alþýðubandalagsmanna í Neskaupstað, ekki liggur fyrir hverjir skipuðu sveitina með honum en sjálfur lék hann líklega á bassa í sveitum sínum.

Jón Ingi hefur leikið með fjölmörgum hljómsveitum á sínum tíma fyrir austan og meðal þeirra sveita er Nefndin sem var stofnuð fyrir aldamót og hefur starfað í áratugi, sveitir sem hann hefur starfrækt í seinni tíð hafa þó líklega engar tengingar við þá sveit. Árið 2002 var hann t.a.m. með hljómsveit sem lék á Lagarfljótsorminum sem var bátur sem sigldi um Lagarfljótið og veturinn á eftir lék sveit hans einnig á þorrablót fyrir austan – engar upplýsingar er að finna um meðlima- og hljóðfæraskipan þeirrar sveitar.

Nokkur ár liðu þar til næsta hljómsveit í nafni Jóns Inga birtist en þar var um að ræða tríó sem lék á dansleik í Fjarðarborg á hátíðinni Álfaborgarséns á Borgarfirði eystra árið 2011, þá sveit skipuðu þeir Jónas Þór Jóhannsson harmonikkuleikari (og líklega söngvari), Árni Áskelsson trommuleikari og Jón Ingi bassaleikari. Þremur árum síðar (2014) lék Hljómsveit Jóns Arngrímssonar aftur á Álfaborgarséns en engar upplýsingar er að finna um skipan þeirrar sveitar.