
Hljómsveit Jóns Hrólfssonar 1980
Harmonikkuleikarinn Jón Hrólfsson starfrækti hljómsveitir á Raufarhöfn í nokkur skipti og voru þær líklega flestar ef ekki allar það sem flokkast undir harmonikkuhljómsveitir.
Jón hafði ungur byrjað að leika fyrir dansi bæði einn og með fleirum en fyrsta hljómsveit hans í eigin nafni starfaði á árunum 1963 til 67 á Raufarhöfn en á þeim tíma var mikið líf í bænum og dansleikir flest kvöld vikunnar í Raufarhafnarbíói sem var aðal samkomustaðurinn í síldarplássinu.
Meðlimir sveitarinnar voru Jón sjálfur sem lék á harmonikku, Skjöldur Björnsson saxófónleikari, Signý Einarsdóttir söngkona og gítarleikari og Matthías Friðþjófsson trommuleikari. Fleiri störfuðu með Jóni á þessum tíma og hér má nefna nöfn eins og Stefán Magnússon harmonikkuleikari, Stebbi Geira [?], Jói Gvendar [?], Svava [?] söngkona og Særún Stefánsdóttir söngkona.
Önnur hljómsveit Jóns starfaði árið 1974 og með honum voru þar feðgarnir Stefán Magnússon harmonikkuleikari og Magnús Stefánsson trommuleikari (síðar með Utangarðsmönnum, Sálinni hans Jóns míns o.fl.) en hann var þá einungis fimmtán ára gamall. Líklega voru þeir þrír í þessari sveit.
Árið 1980 starfrækti Jón hljómsveit í þriðja sinn og þá voru meðlimir sveitar hans Sigvaldi Ómar Aðalsteinsson gítarleikari, Þórhildur Þorgeirsdóttir söngkona og Stebbi Geira [?] auk Jóns sem eins og áður lék á harmonikku.
Óskað er eftir frekari upplýsingum um hljómsveitir Jóns Hrólfssonar.














































