Hljómsveit Jóns Illugasonar (1971-72)

Hljómsveit Jóns Illugasonar starfaði veturinn 1971 til 72 í Mývatnssveit og lék mestmegnis fyrir dansi á heimaslóðum þar sem félagsheimilið Skjólbrekka var þeirra aðalvígi, þeir fóru þó einnig út fyrir sitt svæði og léku t.a.m. á Laugum í Reykjadal.

Hljómsveitin var stofnuð haustið 1971 af Jóni Illugasyni en hann hafði nokkrum árum áður starfrækt hljómsveitina Kóral, þessi sveit var þó skipuð allt öðrum mannskap en meðlimir sveitarinnar voru Hermann Kristjánsson bassaleikari og Hólmgeir Hákonarson söngvari auk Jóns sem sjálfur lék á gítar. Sveitin notaðist í fyrstu við trommuheila en fljótlega fór Hólmgeir að leika á trommur auk þess að syngja, eftir áramótin bættist svo í hópinn Hafliði Jósteinsson sem tók við trommusettinu en Hólmgeir gat þá einbeitt sér að söngnum, Hafliði söng einnig.

Hljómsveit Jóns Illugasonar starfaði fram á vorið 1972 en hætti svo störfum.