Jón Sigurðsson bassaleikari eða Jón bassi, eins og hann var iðulega kallaður til aðgreiðingar frá nöfnum sínum Jóni trompetleikara og Jóni í bankanum (og reyndar fleirum), stjórnaði ógrynni hljómsveita um ævi sína – þar var bæði um að ræða danshljómsveitir sem léku á skemmtistöðum og félagsheimilum víða um land og einnig hljómsveitir sem hann stjórnaði við upptökur á plötum en Jón var kunnur útsetjari og hljómsveitastjóri fyrir útgáfufyrirtækið SG-hljómplötur.
Fyrsta hljómsveit Jóns bassa virðist hafa starfað á skemmtistaðnum Röðli árið 1954 og er engar upplýsingar að finna um þá sveit aðrar en að Haukur Morthens söng með henni, svo virðist sem þessi sveit hafi veið skammlíf. Ári síðar starfaði kvartett í nafni Jóns í Þórscafe snemma sumars en sú sveit hafði stækkað í kvintett síðar um sumarið en hún lék í nokkra mánuði – engar frekari upplýsingar er heldur að finna um þessa sveit.
Á næstu árum störfuðu hljómsveitir (ein eða fleiri) í nafni Jóns, sumarið 1957 lék sveit hans í revíusýningum (og dansleikjum á eftir) í félagsheimilinu Hlégarði í Mosfellssveit og svo í framhaldinu á héraðsmótum framsóknarmanna víðs vegar um landið. Hugsanlegt er að hér hafi verið um að ræða sjálfan KK-sextettinn sem Jón stjórnaði tímabundið í forföllum Kristjáns Kristjánssonar hljómsveitarstjóra. Árið 1958 stjórnaði Jón hljómsveit sem kallaðist The Icelandic All Stars en fjallað er um hana sérstaklega annars staðar á Glatkistunni, en árin 1959 og 60 lék hljómsveit í hans nafni á héraðsmótum víðs vegar um sunnan- og vestanvert landið s.s. í Borgarfirði, Flúðum og Vogum. Engar upplýsingar er að finna um hverjir skipuðu Hljómsveit Jóns á þeim tíma.
Árið 1962 stjórnaði Jón í fyrsta sinn hljómsveit á plötuupptöku auk þess að útsetja fyrir hana, það var á plötu Ellyjar Vilhjálms með lögum úr kvikmyndinni 79 af stöðinni en í þeirri sveit hans voru Guðmundur Steingrímsson trommuleikari, Þórarinn Ólafsson píanóleikari, Ólafur Gaukur Þórhallsson gítarleikari og saxófónleikararnir Gunnar Ormslev og Andrés Ingólfsson, sjálfur lék Jón á bassa. Þessi sveit var ekki starfandi hljómsveit frekar en aðrar sem Jón stjórnaði síðar á plötuupptökum.
Árið 1965 var Jón enn með hljómsveit sem var að leika á skemmtunum og dansleikjum á landsbyggðinni – líklega mestmegnis á héraðsmótum, og á árunum 1967-70 starfrækti hann hljómsveit sem gekk undir nafninu Sextett Jóns Sigurðssonar, fjallað er um hana sérstaklega á öðrum stað.
Á áttunda áratugnum hófst hins vegar tímaskeið þar sem Jón starfaði mikið fyrir Svavar Gests hjá SG-hljómplötum (og fleirum) en það starf fólst í að útsetja tónlist og stjórna hljómsveitum í hljóðveri í upptökum fyrir plötuútgáfuna. Hér má nefna plötur með Ómari Ragnarssyni, Vilhjálmi og Elly Vilhjálms, Sigurði Ólafssyni og Þuríði Sigurðardóttur, Eddukórnum, Þorvaldi Halldórssyni, Halldóri Kristinssyni, Árna Johnsen, Hallbirni Hjartarsyni, Ragnari Bjarnasyni og fleirum en upplýsingar um skipan þeirra hljómsveita voru sjaldnast til staðar á umslögum þeirra platna heldur var einungis tilgreint að hljómsveitarstjórn væri í höndum Jóns Sigurðssonar. Jón starfaði fyrir SG-hljómplötur lengi vel en einnig fyrir aðra, allt til ársins 1993 að minnsta kosti – hann var þó viðloðandi tónlist og upptökur líklega mun lengur.














































