
Hljómsveit Oscars Johansen
Oscar Johansen var dansk-sænskur fiðluleikari sem bjó hér á landi og starfaði um þriggja ára skeið á árunum 1909 til 1912, hann kenndi hér á fiðlu en var fyrst og fremst ráðinn hingað til lands til að leika fyrir gesti á Hótel Íslandi en hélt reyndar einnig tónleika víða um land.
Oscar stofnaði hljómsveit sem ýmist var kölluð Hljómsveit Oscars Johansen, Hljóðfæraflokkur Oscars Johansen eða Hljóðfærasveit Oscars Johansen en hún kom í fyrsta sinn fram opinberlega þegar hún hélt tónleika í febrúar 1912. Þá hafði sveitin æft tíu sinnum svo reikna má með að hún hafi verið sett á laggirnar fyrir áramótin 1911-12. Hljómsveitin var tólf manna og var að öllum líkindum fyrsta hljómsveitin sem starfaði í Reykjavík sem ekki var lúðrasveit. Meðlimir sveitarinnar voru þeir Carl Möller fiðluleikari, Poul Bernburg fiðluleikari, Theódór Árnason fiðluleikari, [?] Fredriksen (kaupmaður) fiðluleikari, Jón Ívarsson píanóleikari, Ágúst Þorsteinsson trumbuleikari, Torfi Sigmundsson klarinettuleikari, Eiríkur Bjarnason hornleikari, Stefán Gunnarsson básúnuleikari, Jónas Magnússon trompetleikari og Gísli Guðmundsson kornetleikari en sjálfur lék Oscar á fiðlu eins og fyrr hefur verið greint frá.
Hljómsveit Oscars lék í fáein skipti opinberlega á tónleikum, fyrst á Hótel Íslandi en síðan í Bárunni en hún mun hafa starfaði í nokkra mánuði fram á sumarið 1912 en þá fluttist Oscar af landi brott.














































