Hljómsveitir voru oft starfræktar við Héraðsskólann að Reykjum í Hrútafirði og voru líklega iðulega kallaðar Skólahljómsveit Reykjaskóla.
Ekki liggur ljóst fyrir hvenær fyrsta hljómsveitin starfaði við skólann, hugsanlega undir lok sjötta áratugarins en fyrsta staðfesta sveitin starfaði þar veturinn 1962-63, Þórir Steingrímsson trommuleikari (og síðar upptökumaður) var þar titlaður hljómsveitarstjóri en aðrir meðlimir voru Gunnar Ó. Kvaran harmonikkuleikari, Anne Mary Pálmadóttir [?], Friðrik Pálsson söngvari og Sigríður Brynjúlfsdóttir söngkona. Þessi sveit spilaði töluvert innan skólans enda munu þá hafa verið reglulegir dansleikir haldnir þar allan veturinn, en hún lék einnig utan skólans.
Haustið 1963 tók líklega ný hljómsveit við sem m.a. var skipuð þeim Pálma Ásmundssyni harmonikkuleikara, Þorsteini H. Gunnarssyni og fleirum en upplýsingar finnast ekki um aðra meðlimi. Heimildir eru um að Svavar Sölvason hafi einhvern tímann verið í hljómsveit starfandi í Reykjaskóla en ekki liggur fyrir hvenær.
Óskað er eftir frekari upplýsingum um þessar sveitir og aðrar sem störfuðu í Reykjaskóla á sínum tíma.














































