
Hljómsveit Reykjavíkur á upphafsárum hennar
Hljómsveit hafði verið sett á laggirnar í tengslum við konungskomu Kristjáns X árið 1921, undir nafninu Hljómsveit Reykjavíkur og hafði sú sveit starfað í fáein ár við kröpp kjör áður en hún lognaðist endanlega útaf haustið 1924. Þessi sveit hafði verið sú fyrsta sinnar tegundar hérlendis en um var að ræða litla sinfóníuhljómsveit – um tuttugu manna sveit að mestu skipuð strengjahljóðfærum.
Menn sáu sem var, að byggja þyrfti slíka sveit upp frá grunni og þó að mikill byrjendabragur hefði verið á Hljómsveit Reykjavíkur og fæstir meðlimir hennar tónlistarmenntaðir væri kominn grundvöllur fyrir stofnun alvöru hljómsveitar af þessu tagi hér á landi og því var félag stofnað utan um verkefnið í því skyni að fjármagna slíka sveit. Aðal hvatamennirnir að því voru þeir Jón Laxdal og Sigfús Einarsson (sem hafði einmitt komið að hinni fyrri sveit) en þeir stofnuðu þetta félag þar sem meðlimir þess greiddu félagsgjöld og keyptu um leið áskrift að tónleikum sveitarinnar sem fyrirhugað var að yrðu mánaðarlega yfir vetrartímann. Sveitin sjálf var stofnuð í kjölfarið en Þórarinn Guðmundsson fiðluleikari, sem einnig hafði komið að Hljómsveit Reykjavíkur hinni fyrri stofnaði hina nýju sveit og stjórnaði henni í upphafi – hún hlaut sama nafn, Hljómsveit Reykjavíkur.
Félagið utan um sveitina var sem fyrr segir skipað meðlimum með áskrift að tónleikum – styrktaraðilum og voru það aðallega sjálfsagt betri borgarar með áhuga á tónlist en ekki liggja fyrir upplýsingar um hversu margir þeir voru í upphafi, nægilegt fjármagn hefur þó líklega fengist til að tónlistarmennirnir gætu verið á einhverjum launum en e.t.v. hefur einnig fengist einhver styrkur frá bæjaryfirvöldum eða ríki. Almenningur hafði svo einnig kost á að kaupa miða á tónleika sveitarinnar sem og á general prufur fyrir tónleika svo einhvern veginn gekk dæmið upp.
Fyrstu tónleikar Hljómsveitar Reykjavíkur voru haldnir haustið 1925 í Nýja bíói undir stjórn Sigfúsar Einarssonar en á þeim tónleikum voru flutt verk úr ýmsum áttum og var Axel Wold sellóleikari einleikari á þeim, síðar voru flestir tónleikar sveitarinnar haldnir í Gamla bíói. Ekki liggja fyrir miklar upplýsingar um sveitina á þessum fyrstu árum, reiknað hafði verið með að um tuttugu manns myndu skipa hana í upphafi en líklega voru þeir eitthvað færri og voru því notuð bæði píanó (Valborg Einarsdóttir) og harmoníum til að gefa sveitinni fyllri hljóm fyrst um sinn en fiðluleikarar munu hafa verið áberandi í skipan hennar. Sveitin hafði æfingaaðstöðu í Hljómskálanum sem þarna var tiltölulega nýbúið að reisa en hún deildi þar aðstöðu með Lúðrasveit Reykjavíkur.
Sjö tónleikar voru haldnir fyrsta starfsvetur sveitarinnar og eitthvað hafði fjölgað í sveitinni um veturinn því meðlimir hennar voru farnir að nálgast 25 um haustið 1926, erlendir hljóðfæraleikarar voru nokkuð fjölmennir í sveitinni þar sem einungis örfáir Íslendingar höfðu aflað sér tónlistarmenntunar – og reyndar voru í henni einhverjir einstaklingar sem litla eða enga tónlistarmenntun höfðu fengið. Þá komu stundum einsöngvarar fram með sveitinni og var Guðrún Sveinsdóttir meðal þeirra, hún var líklega fyrsti einsöngvarinn sem söng með svo stórri hljómsveit hér á landi á tónleikum.
Smám saman fjölgaði í Hljómsveit Reykjavíkur og árið 1928 fylltu meðlimir hennar þriðja tuginn, þá hafði Páll Ísólfsson tekið við stjórninni af Þórarni og einnig komu erlendir stjórnendur stöku sinnum til landsins sem gestastjórnendur. Árið 1929 kom til sögunnar einn slíkur stjórnandi, Þjóðverjinn Johannes Velden en hann var reyndar fenginn til landsins til að leiðbeina hljóðfæraleikurunum fyrir stórt verkefni sem þá var framundan – Alþingishátíðina á Þingvöllum sem þá stóð fyrir dyrum sumarið 1930, námskeið hans var liður í því að bæta sveitina. Velden varð vel ágengt en reyndar urðu kröfur hans um aga og vandvirkni til þess að einhverjir tónlistarmannanna hættu í sveitinni sármóðgaðir – það munu hafa verið nokkrir þeirra sem hæst voru skrifaðir innan hljómsveitarinnar, nafntogaðir tónlistarmenn. Þetta varð þó til þess að hinir þeir sem minna kunnu bættu sig verulega svo sveitin varð mun áheyrilegri á tónleikum sem haldnir voru í Fríkirkjunni með Velden við stjórnina, en einnig mun fáskipaðri en áður. Þeir sem hurfu á braut móðgaðir munu þó hafa snúið aftur í sveitina þegar Þjóðverjinn fór af landi brott. Þetta voru ekki einu deilurnar innan sveitarinnar en meðlimir voru eins og fyrr segir mislangt á veg komnir á hljóðfæri sín, fæstir höfðu menntun og reynslu í tónlist og þá var jafnframt skortur á hljóðfærum svo erfitt var t.a.m. að halda úti brasshluta sveitarinnar.

Hljómsveit Reykjavíkur 1933
Austurríkismaðurinn dr. Franz Mixa var ráðinn til að stjórna hljómsveitinni á Alþingihátíðinni og kom hann til landsins haustið 1929, hann stóð frammi fyrir svipuðum agavandamálum og Velden nokkrum mánuðum fyrr og m.a. þurfti hann að taka á óstundvísi meðlima sveitarinnar á æfingum. Hann sá líka að ef sveitin ætti að vera orðin þokkalega góð fyrir hátíðina þyrfti að fjölga í henni og því brá hann á það ráð að sækja nokkra erlenda hljóðfæraleikara til Danmerkur til að „þétta“ sveitina en níu slíkir tónlistarmenn úr Konunglegu sinfóníuhljómsveitinni í Kaupmannahöfn léku með sveitinni á hátíðinni og nokkrum tónleikum í kringum hana og var fyrir vikið skipuð 43 meðlimum. Hljómsveitin lék í hátíðardagskrá Alþingishátíðarinnar bæði ein og sér sem og undir söng kóra og einsöngvara.
Upptökumenn á vegum Columbia komu hingað til lands á vegum Fálkans til að hljóðrita efni í kringum Alþingishátíðina og Hljómsveit Reykjavíkur var einn af þeim flytjendum en upptökur fóru fram í Bárubúð við Tjörnina (sem gekk þá undir nafninu K.R. húsið). Í kjölfarið kom út tveggja laga plata með sveitinni sem markar tímamót í íslenskri tónlistarsögu að því leyti að þar var á ferð fyrsta íslenska platan sem hafði að geyma tónlist með sinfónískri hljómsveit, og í öðru lagi að á henni kom þjóðsöngurinn Lofsöngur (Ó, guð vors lands) út í fyrsta skipti á plötu. Um þetta leyti var Ríkisútvarpið einnig stofnað og það gerði um það leyti samning við hljómsveitina um að leika reglulega í útvarpsdagskránni næstu misserin.
Franz Mixa starfaði hér áfram eftir Alþingishátíðina en hann átti eftir að búa hér á landi um tíma og stjórna sveitinni, reyndar með þeim skilyrðum að hér yrði stofnaður tónlistarskóli sem gert var í kjölfarið og til varð Tónlistarskólinn í Reykjavík sem fyrst um sinn var rekinn af Hljómsveit Reykjavíkur. Fljótlega varð reyndar ljóst að reksturinn yrði erfiður, að halda úti tónlistarskóla og stjórnanda á launum auk þess að reka sjálfa hljómsveitina yrði afar erfitt en árið 1932 tóku nokkrir framámenn í samfélaginu sig til og stofnuðu Tónlistarfélagið í Reykjavík sem tók yfir rekstur tónlistarskólans og um leið Hljómsveitar Reykjavíkur. Í kjölfarið fjölgaði styrktaraðilum sveitarinnar verulega og urðu líklega um 300 talsins.
Við tók eins konar blómaskeið næstu árin þar sem sveitinni varð tryggður rekstrargrundvöllur, hún lék með reglubundnum hætti í Útvarpinu og á tónleikum í Fríkirkjunni, Gamla bíói, Iðnó og víðar, og vegur sveitarinnar óx einnig samhliða því sem tónlistarskólanum óx ásmegin því fjölmargir ungir tónlistarmenn hófu að leika með sveitinni samhliða námi sínu í skólanum.
Á næstu árum tók Hljómsveit Reykjavíkur þátt í tónleika- og óperuuppfærslum á stærri verkum, bæði óperettum og óperum, hér má nefna Meyjaskemmuna sem sýnd var við miklar vinsældir um fjörutíu sinnum 1934-35, Tvíburasysturnar (Die Schwestern von Prag) e. Wenzel Müller (sem var fyrsta óperan sem sett var á fjalirnar hérlendis) 1937 og Bláu kápuna 1938 (sem einnig var farið með norður í land en 37 manna hópur ók norður yfir heiðar á tveimur bílum frá Steindóri og hélt sýningar á Akureyri, Blönduósi og Húsavík). Starfsemin fór að langmestu leyti fram á veturna en þó eru dæmi um að sveitina hafi leikið um sumar, t.d. á skemmtun sjálfstæðismanna á Eiði sumarið 1937 en þar stjórnaði Albert Klahn sveitinni og sjálfsagt hefur verið þar um eitthvert léttmeti að ræða.

Hljómsveit Reykjavíkur og kór í Fríkirkjunni 1940
Árið 1938 fór dr. Mixa af landi brott og við starfi hans tók Victor Urbancic, í hans tíð voru stærri hljómsveitaverk tekin til spilunar bæði íslensk og erlend en einnig tók sveitin áfram þátt í flutningi á óperettum og óperum. Hér má nefna Sköpunina (e. Haydn) fyrir jólin 1939 sem Páll Ísólfsson stjórnaði reyndar, sem var þá stærsta uppfærsla sem sett hafði verið á svið hérlendis og hér var ekkert hús nógu stórt fyrir flutninginn sem var í höndum hljómsveitarinnar (33 manns) og 70 manna kórs auk einsöngvara. Því var brugðið á það ráð að flytja verkið í bifreiðaskála Bifreiðarstöðvar Steindórs en tónleikana sóttu á þriðja þúsund gesta. Þess má einnig geta að Meyjaskemman hafði verið sett aftur á svið árið 1939 en þegar til stóð að fara með sýninguna norður í land um sumarið þurfti að hætta við því að Þjóðverjarnir sem léku með sveitinni voru allir kallaðir heim til Þýskalands í herþjónustu – það segir bæði til um áhrif stríðsins á rekstur sveitarinnar sem og um fjölda útlendinga sem störfuðu með henni.
Fleiri verk voru flutt á þessum árum s.s. óperettan Brosandi land, óratorían Messías e. Händel, Requiem sálumessa Mozarts, Árstíðirnar e. Haydn, Jóhannesar passían e. Bach og fleiri mætti nefna s.s. óratoríu Björgvins Guðmundssonar – Friður á jörðu vorið 1945 og Alþingiskantötu Páls Ísólfssonar sem unnið hafði til verðlauna á Alþingishátíðinni 1930 en hún var flutt í heild sinni á tónleikum sveitarinnar á fimmtugs afmæli tónskáldsins árið 1943, sem stjórnaði sveitinni sjálfur af því tilefni – það sama haust festi sveitin kaup á um fjörutíu strengjahljóðfærum af pólskri sinfóníusveit sem þá var verið að leysa upp.
Um miðjan fimmta áratuginn fór Hljómsveit Reykjavíkur smám saman að liðast í sundur, önnur hljómsveit sem starfaði innan FÍH hafði verið stofnuð 1944 og einhvern veginn blandaðist starfsemi sveitanna tveggja saman um tíma en árið 1947 voru síðan lögð drög að stofnun nýrrar hljómsveiar sem tók við sveitunum tveimur – Symfóníuhljómsveit Reykjavíkur (Sinfóníuhljómsveit Reykjavíkur) sem var síðan formlega stofnuð um haustið og hélt sína fyrstu tónleika í upphafi árs 1948. Sú sveit hafði á að skipa um fjörutíu tónlistarmönnum og flestir þeirra höfðu áður leikið með Hljómsveit Reykjavíkur en tveimur árum síðar var þeirri sveit skapaður varanlegur rekstrargrundvöllur með aðkomu Reykjavíkur-borgar og Ríkisútvarpsins og hlaut þá nafnið Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þá má segja að bilið hafi endanlega verið brúað frá Hljómsveit Reykjavíkur (hinnar fyrri) til Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem enn er starfandi, með svo til samfleyttri starfsemi frá árinu 1921 til dagsins í dag. Hljómsveit Reykjavíkur sem hér er fjallað um á mjög stóran þátt í því ferli, meðal annars með tilliti til þess að hefð komst á slíkt hljómsveitarstarf með henni og ekki síður að sveitin kom að stofnun Tónlistarskólans í Reykjavík sem auðveldaði alla frekari vinnu fyrir komandi tónlistarstarfsemi í landinu. Og ekki má gleyma að upp úr henni komu fjölmargir tónlistarmenn sem auðguðu íslenskt tónlistarlíf.














































