Harmonikkuleikarinn Róbert Þórðarson starfrækti í nokkur skipti hljómsveitir í eigin nafni en yfirleitt var hann í lausamennsku í tónlistinni og starfaði með hinum og þessum sveitum.
Fyrstu heimildir um sveit í nafni Róberts var Swing kvartett árið 1949 en um þá sveit er fjallað annars staðar á Glatkistunni. 1951 og 52 var hann hins vegar með hljómsveit sem lék á dansleikjum í Tryggvaskála á Selfossi og 1959 lék hljómsveit undir hans stjórn á árshátíð alþýðuflokksins sem haldin var í Hafnarfirði. Engar frekari upplýsingar er að finna um hljóðfæra- og meðlimaskipan þessara sveita aðrar en þær að Róbert mun hafa verið harmonikkuleikari þeirra.














































