Stefán Jökulsson var á tíunda áratug síðustu aldar nokkuð áberandi á reykvískum dansstöðum en hann starfaði þá um tíma með söngvurum eins og Ragnari Bjarnasyni, Örnu Þorsteinsdóttur, Sigrúnu Evu Ármannsdóttur og fleirum, lék þá á skemmtara eða hljómborð í Súlnasal Hótel Sögu, Næturgalanum í Kópavogi og víðar.
Árið 1994 var Hljómsveit Stefáns Jökulssonar auglýst á Næturgalanum ásamt söngkonunni Örnu Þorsteinsdóttur og um svipað leyti starfaði hann einnig með Örnu sem dúett á sama stað, það er því ekki ljóst hvort hljómsveit Stefáns var það sama og dúett þeirra beggja. Síðan tók við nokkurra ára samstarf Stefáns við Ragnar Bjarnason en þar var reyndar aldrei talað um hljómsveit.
Árið 1999 var hins vegar aftur hljómsveit á ferð í nafni Stefáns, sú sveit lék á árshátíð á Hótel Sögu ásamt söngkonunni Sigrúnu Evu sem hann hafði þá starfað með í dúett í nokkurn tíma en ekki liggur heldur fyrir hvort einungis var um samstarf þeirra tveggja að ræða eða hvort heil hljómsveit var á bak við nafnið.
Óskað er eftir frekari upplýsingum um sveitina.














































