Harmonikkuleikarinn Sveinn Sigurjónsson starfrækti harmonikkuhljómsveit í eigin nafni frá því snemma á þessari öld og allt til 2018. Fyrst eru heimildir um sveit hans frá árinu 2004 en sú lék á dansleik í Glæsibæ á vegum Félags harmonikuunnenda í Reykjavík, og næstu árin á eftir lék sveitin töluvert á höfuðborgarsvæðinu s.s. í Breiðfirðingabúð og Glæsibæ eða til ársins 2007. Engar upplýsingar er að finna um meðlimi eða hljóðfæraskipan þessarar sveitar.
Hljómsveit Sveins birtist á nýjan leik eftir nokkurt hlé í kringum 2010 og þá virðist Sveinn fluttur norður í Húnavatnssýslu en hann mun reyndar vera Dalamaður að uppruna, meira og minna allan annan áratug aldarinnar lék sveit hans á harmonikkudansleikjum og öðrum tengdum skemmtunum fyrir norðan og var félagsheimilið Ásbyrgi í Miðfirði heimavöllur hennar enda hafa þar til langs tíma verið haldin harmonikkumót og -hátíðir af ýmsu tagi, má hér m.a. nefna Harmonikuhátíð fjölskyldunnar.
Litlar upplýsingar er að finna um skipan sveitar Sveins nema árið 2014 en meðlimir hennar voru þá auk hljómsveitarstjórans þeir Sigvaldi Fjeldsted harmonikkuleikari, Helgi E. Kristjánsson bassaleikari, Jón Guðmundsson gítarleikari og Sveinn Ingi Sveinsson trommuleikari.
Hljómsveit Sveins Sigurjónssonar virðist hafa starfað til ársins 2018.














































