Hljómsveit Þorleifs Gíslasonar (1984 / 2006)

Þorleifur Gíslason saxófónleikari var tvívegis með hljómsveitir í eigin nafni en þær voru báðar starfræktar í tengslum við tónlistarsýningar með áherslu á frumrokkið, slíkar tónlistardagskrár nutu um þær mundir mikilla vinsælda.

Fyrri sveit Þorleifs starfaði árið 1984 og lék í tónlistarskemmtun í upphafi árs sem gekk undir yfirskriftinni Rock-festival en þar var gamla rokkið í heiðri haft með söngvurum eins og Stefáni Jónssyni (í Lúdó), Sigurdóri Sigurdórssyni, Þorsteini Eggertssyni, Astrid Jensdóttur, Mjöll Hólm og Önnu Vilhjálms. Ekki liggur fyrir hversu margar sýningarnar urðu eða hverjir skipuðu sveitina með Þorleifi.

Hljómsveit Þorleifs Gíslasonar hin síðari lék á sams konar tónleikum sem haldnir voru í Salnum í Kópavogi haustið 2006, sú skemmtun var tileinkuð 50 ára afmæli rokksins og söngvarar eins og Ragnar Bjarnason, Mjöll Hólm, Sigurður Johnny, Helena Eyjólsfsdóttir og Bertha Biering sungu þar með sveitinni. Hún var skipuð þeim Elfari Berg píanóleikara, Guðmundi Steingrímssyni, Arthur Moon bassaleikara, Þórði Árnasyni gítarleikara, Vilhjálmi Guðjónssyni saxófónleikara og Þorleifi hljómsveitarstjóra sem lék á saxófón og annaðist allar útsetningar fyrir sveit sína.