
Hljómsveit Þorvaldar á Hótel Siglunesi
Þorvaldur Steingrímsson var fjölhæfur tónlistarmaður, hann var framan af þekktur saxófón- og klarinettuleikari en síðar einnig sem fiðluleikari. Hann starfrækti því ótal danshljómsveitir og strengjasveitir sem léku ólíkar tegundir tónlistar en hljómsveitir hans sem flestar voru skammlífar, enda oftar en ekki settar saman fyrir stök verkefni störfuðu frá því undir lok fjórða áratugarins og allt fram á síðasta áratug aldarinnar.
Fyrstu hljómsveitir Þorvaldar störfuðu árið 1939, þannig var hann með danshljómsveit sem lék á Hótel Siglunesi á Siglufirði um sumarið en síldarævintýrið stóð þá sem hæst, með Þorvaldi í sveitinni voru þeir Poul Bernburg trommuleikari, Jónatan Ólafsson píanóleikari og Gísli Einarsson saxófónleikari en sjálfur lék Þorvaldur á saxófón. Um haustið starfrækti hann svo strengjakvintett sem lék í Oddfellowhúsinu í Reykjavík en ekki finnast upplýsingar um skipan hennar.
Lítið fór fyrir hljómsveitum í nafni Þorvaldar næstu árin, hann stjórnaði í kringum 1950 fimmtán manna hljómsveit innan FÍH sem bar auðvitað ekki nafn hans en næstu árin á eftir stjórnaði hann nokkrum strengjasveitum sem léku m.a. í útvarpi og á síðdegistónleikum á Röðli en sú sveit starfaði um vorið og sumarið 1954. Sama haust var Þorvaldur með danshljómsveit sem lék í Þórscafe og Hótel Borg – hún starfaði líklega fram á sumarið 1956 og lék mikið á Borginni en einnig á miðnæturtónleikum í Austurbæjarbíói (og aftur 1959), jólatrésskemmtunum fyrir börn, sumarhátið Lúðrasveitar Reykjavíkur og víðar, ekki liggja fyrir upplýsingar um meðlimi sveitarinnar en söngvarar eins og Sigurður Ólafsson, Haukur Morthens, Alfreð Clausen og Helen Davies sungu með sveitinni á ýmsum tímaskeiðum. Samhliða þeirria spilamennsku stjórnaði hann einnig strengjasveitum sem m.a. léku á jólatónleikum í Dómkirkjunni og víðar.

Hljómsveit Þorvaldar á afmælishátíð FÍH 1982
Þorvaldur bjó erlendis lengi á sjöunda áratugnum en undir lok hans (1968 og 69) starfrækti hann strengjakvartett sem hélt tónleika í Reykjavík og á nokkrum stöðum á landsbyggðinni, með honum í þeim kvartett léku Jónas Dagbjartsson (2. fiðla), Oldrich Kotora (selló), og Miroslav Tomecek (lágfiðla), sjálfur lék Þorvaldur 1. fiðlu.
Minna fór fyrir hljómsveitum í nafni Þorvaldar á níunda áratugnum en þær sveitir voru allar strengjasveitir sem léku klassíska tónlist enda hafði þá fiðlan fyrir löngu tekið yfir á ferli hans. Það var svo árið 1982 þegar FÍH hélt upp á hálfrar aldar afmæli sitt með stórtónleikum, að Þorvaldur var fenginn til að stjórna því sem kallað var útvarpshljómsveit í anda Þórarins Guðmundssonar en það var þrettán manna sveit og var kennd við Þorvald, heyra má leik þeirrar sveitar á tvöfaldri plötu sem gefin var út í framhaldinu og ber titilinn FÍH 50 ára: 1932-82.

Hljómsveit Þorvaldar Steingrímssonar 1987
Fleiri strengjasveitir störfuðu í nafni Þorvaldar út níunda áratuginn, m.a. tólf manna sveit sem lék á plötunni Laufvindum en einnig sveitir sem léku svokallaða Vínartónlist, upplýsingar um þær sveitir eru afar takmarkaðar en þær léku einkum í kringum áramót – ein þeirra lék á veitingahúsinu Naustinu. Þá lék hljómsveit í hans nafni við vígslu Útvarpshússins árið 1987. Síðasta sveitin kennd við Þorvald starfaði líklega árið 1991 og gekk undir nafninu Salon tríó Þorvaldar Steingrímssonar en hún fær sér umfjöllun á síðunni.














































