
Kiriyama family
Ford fyrirsætukeppnin virðist við fyrstu sýn eiga lítið skylt við tónlist en árið 2011 kom upp sú hugmynd innan keppninnar hérlendis að halda hljómsveitakeppni í samstarfi við hljóðverið Sýrland og Benzin music þar sem sigursveitin myndi koma fram á úrslitakvöldi fyrirsætukeppninnar í febrúar, verðlaunin yrðu þau að lag yrði fullunnið með sigursveitinni auk myndbands við það.
Svo fór að um þrjátíu hljómsveitir tóku þátt í keppninni en dómnefnd sá um að velja hljómsveit og lagið með henni, hljómsveitin Kiriyama family sigraði keppnina með lagið Sneaky boots en sveitin var á þeim tíma óþekkt nafn í tónlistinni. Sveitin hafði verið stofnuð árið 2008 en í kjölfar Ford-keppninnar þar sem hún kom fram á úrslitakvöldinu fór hún á flug og varð töluvert þekkt, sendi frá sér plötur og nýtti sér því ágætlega þann stökkpall sem Ford fyrirsætukeppnin varð henni.
Vonir stóðu til að Hljómsveitakeppni Ford fyrirsætukeppninnar yrði að árlegum viðburði en af því varð þó ekki.














































