
Frá Húnaveri 1990
Löng hefð var fyrir skemmtanahaldi norður í Húnaveri í Austur-Húnavatnssýslu um verslunarmannahelgi en þar hafði þó ekki verið haldin útihátíð um árabil þegar Stuðmenn blésu til einnar slíkrar sumarið 1989, sveitin hafði þá komið að slíkum hátíðum í Atlavík og Húsafelli og stjórnað þar hljómsveitakeppnum, og slík keppni var einnig meðal dagskrárliða á hátíðinni sem hlotið hafði nafnið Húnaver ´89.
Svo fór að fjölmenni mætti á Húnaver ´89 en þangað komu um fimm þúsund gestir og hvorki fleiri né færri en tuttugu og níu hljómsveitir tóku þátt í hljómsveitakeppninni. Fjórar þeirra komust í úrslit keppninnar og sigraði Bootlegs hana en í öðru sæti hafnaði Sérsveitin, Batterí var í þriðja sæti og Adolf Úlfsson & frambendlarnir urðu fjórðu, þungt rokk var áberandi í keppninni.
Góð aðsókn á hátíðina varð tilefni til bjartsýni og Húnavershátíðin var því endurtekin að ári liðnu og þá gekk hljómsveitakeppnin undir heitinu Bjartasta vonin 1990. Ekki liggur fyrir hversu margar sveitir voru skráðar til leiks en þegar nær dró varð ljóst að leiðindaveður myndi setja mark sitt á fyrripart helgarinnar og því munu fjölmargar hljómsveitir hafa hætt við að mæta á staðinn, og reyndar mættu ekki nema um 2500 manns á hátíðina af sömu sökum. Hljómsveitin Dufþakur bar sigur úr býtum og Hydra lenti í öðru sæti en ekki liggja fyrir upplýsingar um aðrar þátttökusveitir eða keppnina almennt.
Þrátt fyrir þetta áfall var hátíðin haldin í þriðja sinn um verslunarmannahelgina 1991 en þá var fyrirkomulag hljómsveitakeppninnar með þeim hætti að þrjár sveitir sigruðu og þær hljóðrituðu eitt lag hver sem fór í spilun á útvarpsstöðinni FM957 að hátíðinni lokinni en sigursveitin var svo kjörin af dómnefnd og hlustendum stöðvarinnar í framhaldinu. Tuttugu og ein hljómsveit keppti í blíðskaparveðri í Húnaveri og svo fór að hljómsveitin In Memoriam sigraði, Ber að ofan varð í öðru sæti og Helgi og hljóðfæraleikararnir lentu í því þriðja, og sigursveitin fór svo til Kaupmannahafnar ásamt fleiri íslenskum hljómsveitin til að leika á Copenhagen Music Seminar tónlistarhátíðinni. Meðal annarra þátttökusveita í Húnaveri má nefna Rotþróna, Alvildu, Guði gleymdir og 911.
Af einhverjum ástæðum mættu fáir á hátíðina 1991 og stórtap varð á henni, Húnavershátíðin var því ekki haldin aftur.














































