
Hlynur á skemmtun læknafélagsins 1987
Hlynur Þorsteinsson læknir er það sem kalla mætti einyrki í tónlist þrátt fyrir að hann hafi starfað með fjölda hljómsveita sem gefið hafa út tugi platna, þær sveitir eiga það sameiginlegt að leika tónlist eftir hann.
Hlynur (f. 1953) mun hafa eignast sinn fyrsta gítar um 17 ára aldur og fljótlega upp úr því farið að semja lög og texta. Hann hafði sig lítið í frammi í tónlistinni framan af, var þó eitthvað í hljómsveitum, m.a. einni sem lék þjóðlagatónlist en ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um þá sveit – Hlynur lék með þeim Guðmundi Steingrímssyni trommuleikara, Árna Scheving bassaleikara og Gretti Björnssyni harmonikkuleikara undir söng írsku þjóðlagasöngkonunnar Mary Conolly í sjónvarpsþætti árið 1974 en það var líklega ekki sveitin sem um ræðir.
Hlynur lauk læknanámi og starfaði við heimilislækningar, á bráðadeild, í þyrlusveit Landhelgisgæslunnar, við rústabjörgun og víðar og þar með varð tónlistin lögð til hliðar um áratuga skeið, utan þess að hann kom stundum fram á árshátíðum og öðrum skemmtisamkomum innan læknasamfélagsins. Það var ekki fyrr en um aldamót sem hann fór að sinna tónlistinni að marki og þá með þeim hætti að á árunum 2002 til 2012 komu út þrjátíu og níu plötur (sumar tvöfaldar) undir hans merkjum með hljómsveitum hans sem voru fjölmargar en allar léku þær tónlist samdar af honum og voru reyndar flestar eins konar einsmannssveitir.

Hlynur Þorsteinsson
Fyrstu tvær plöturnar komu út árið 2002 og voru með hljómsveit sem bar nafnið Pósthúsið í Tuva, í kjölfarið kom út plata með Sigurboganum sem var strangt til tekið eins manns sveit Hlyns eins og sú fyrrnefnda. Einnig kom út það sama ár plata með hljómsveitinni Dúskum sem var í upphafi samstarfsverkefni Hlyns og Sigurðar J. Grétarssonar, sú plata var reyndar óopinber útgáfa ætluð vinum og vandamönnum en fleiri slíkar áttu eftir að koma út með Dúskum – þó reyndar með Hlyni einum.
Næstu árin komu út fleiri plötur með sveitunum þremur en einnig komu út plötur með dúettnum Úlfum (2005) þar sem þeir Hlynur og Sigurður gerðu Egils sögu skil á tvöfaldri plötu, og hljómsveitunum Egginu, Spilaborginni, Hljóðum, Heybrók og Contraband sem voru enn fleiri hliðar á sömu sveitinni – eins manns sveitir Hlyns þar sem hann naut aðstoðar sama mannskaps, aðallega þó trommuleikarans Gunnars Einars Steingrímssonar. Á flestum þessara platna voru lög og textar eftir Hlyn en einnig ljóð þjóðskáldanna o.fl. Alls komu því út þrjátíu og níu plötur í nafni þessara sveita en Hlynur var útgefandi þeirra allra, hann hefur reyndar einnig komið við sögu sem textahöfundur á plötu Guðjóns Baldurssonar – Plokkfiski (2005), plötu Sigurðar J. Grétarssonar – Einn og ómengaður: 50 ára, og starfað með hljómsveitinni Dr. Hó (og Bráðasveitinni) sem hefur sent frá sér plötur einnig.
Þrátt fyrir alla þessa útgáfur, vel á sjötta hundrað laga á um fjörutíu plötu, þá hefur Hlynur lítið komið fram opinberlega með hljómsveitum sínum og félögum en látin verkin fyrst og fremst tala á plötunum. Plöturnar hafa reyndar allar komið út í litlu upplagi og fengið litla athygli en stöku dómar hafa þó birst um þær í fjölmiðlum, og þeir verið afar misjafnir í garð tónlistarinnar sem þykir nokkuð óhefðbundin en textar Hlyns hafa yfirleitt þótt vel í meðallagi.
Ekki liggur fyrir hvort Hlynur sé hættur að vinna að tónlist en síðustu plötur hans og sveita hans komu út árið 2012.














































