
Högni Jónsson
Högni Jónsson annaðist harmonikkuþætti í Ríkisútvarpinu í áratugi, hann var fróðastur flestra um hljóðfærið og lék einnig á harmonikku sjálfur.
Högni var fæddur snemma árs 1936 en ekki liggur mikið fyrir um hagi hans. Hann lærði á harmonikku hjá Jan Morávek í kringum 1960 og áður hafði hann einnig notið leiðsagnar hjá Karli Jónatanssyni og Sigurði Briem, hann lék eitthvað á dansleikjum ásamt öðrum harmonikkuleikurum á yngri árum en var fyrst og fremst áhugamaður um hljóðfærið og sögu þess.
Árið 1957 hóf Högni að annast útvarpsþætti um harmonikkun í Ríkisútvarpinu rétt liðlega tvítugur, og síðar einnig ásamt Henry J. Eyland allt til 1962 með hléum, og fékk hann stundum harmonikkuleikara til að leika listir sínar í þættinum en oftar var leikið af plötum. Þegar almennur áhugi á nikkunni dalaði í kjölfar breytts tíðaranda með bítlatónlist og annars konar tónlist virðist Högni hafa snúið sér að öðru um tíma, en þegar hljóðfærið var á nýjan leik hafið upp til vegs og virðingar undir lok áttunda áratugarins með stofnun harmonikkufélaga um land allt, tók Högni þátt í þeirri uppbyggingu.
Högni var meðal stofnmeðlima Félags harmonikuunnenda í Reykjavík og árið 1979 hóf hann aftur að annast dagskrárgerð í útvarpi um hljóðfærið, fyrst ásamt Bjarna Marteinssyni og Sigurði Alfonssyni en síðar einn síns liðs allt til haustsins 1990, hann kom einnig að innflutningi á erlendum harmonikkuleikurum og má nefna Ítalann Salvatore de Gesualdo og Finnann Matti Rantanen í því samhengi og hélt hann m.a. utan um tónleikahald með þeim og öðrum.
Högni var sem fyrr segir fyrst og fremst fróður um harmonikkur og sögu þeirra og hélt stundum fræðsluerindi um efnið, skrifaði m.a. í efnisskrár en einnig í tímaritin Harmoníkuna og Harmonikkublaðið. Hann lék ekki sjálfur mikið opinberlega á harmonikku, gerði það þó stöku sinnum og einnig má nefna að leik hans má heyra á plötu Félags harmonikuunnenda í Reykjavík – Líf og fjör með harmonikuunnendum, sem kom út 1980. Um tíma stóð Högni í innflutningi á harmonikkum og var einnig með viðgerðarþjónustu um skeið. Þess má geta að hann er faðir Þórðar Högnasonar kontrabassaleikara.
Högni Jónsson lést síðla árs 2020 en hann átti þá stutt í áttatíu og fimm ára afmæli sitt.














































