
Hörður Áskelsson
Framlag Harðar Áskelssonar til tónlistarsamfélagsins og einkum þegar kemur að orgeltónlist og kórstjórnun, verður seint að fullu metið en hann hefur starfað sem organisti, orgelleikari, kórstjórnandi, tónskáld og tónleikahaldari, og auk þess leitt og stofnað til fjölmargra tónlistarhópa, -félaga og -viðburða til að auka veg orgel- og kirkjutónlistar.
Hörður Áskelsson er fæddur á Akureyri haustið 1953 en hann er sonur tónlistarfrömuðar þar í bæ – Áskels Jónssonar, Jón Hlöðver Áskelsson tónlistarmaður á Akureyri er jafnframt eldri bróðir Harðar og fleira þekkt tónlistarfólk er í ættinni einnig. Hörður nam píanó- og orgelleik við tónlistarskólann á Akureyri, mest hjá Gígju Kjartansdóttur á orgel og hugsanlega var hann í einhverjum hljómsveitum á unglingsárum sínum. Hann kom eitthvað fram opinberlega á þessum árum, lék t.d. á píanó við vígslu gagnfræðaskólans á Akureyri haustið 1967 og samdi í félagi við annan tónlist við leikritið Strompleik eftir Halldór Laxness sem Leikfélag Akureyrar setti á svið 1972. Þá lék hann stundum undir söng söngfélagsins Gígjunnar, Karlakórs Akureyrar og 24 MA-félaga á tónleikum nyrðra.
Að loknu stúdentsprófi fór Hörður suður til Reykjavíkur til að nema frekari fræði í tónlistinni og hafði þá þegar háleit markmið um framtíðina, hann lauk tónmenntakennaraprófi og B-prófi í orgelleik við Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hann naut aðallega kennslu Marteins H. Friðrikssonar, sem og námi við Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Samhliða námi sínu fyrir sunnan lék hann við fjölda guðþjónusta s.s. í Bessastaða- og Háteigskirkju og var þeim messum stundum útvarpað. Á þessum árum hafði hann kynnst verðandi eiginkonu sinni, Ingu Rós Ingólfsdóttur sellóleikara (dóttur Ingólfs Guðbrandssonar) og léku þau stöku sinnum saman á tónleikum á þessum árum, og svo auðvitað margsinnis síðar meir. Hörður starfaði jafnframt samhliða námi sínu sem organisti við Fríkirkjuna í Hafnarfirði og lék undir söng Kórs Langholtskirkju, á aðventukvöldum í Dómkirkjunni og víðar á þeim tíma.
Það var svo haustið 1976 sem Hörður fór til framhaldsnáms í Vestur-Þýskalandi og þar átti hann eftir að dvelja næstu árin, en kom þó reglulega heim til Íslands í fríum sínum og lék á tónleikum. Hér má t.d. nefna norræna menningarviku á Akureyri en mest lék hann þó með Pólýfónkórnum en Ingólfur tengdafaðir hans stjórnaði þeim kór, með þeim kór tók hann þátt í tónleikahaldi og þar eru með taldar uppfærslur á stærri verkum. Hörður lék einnig í fyrsta sinn á plötu um þetta leyti en það var á fyrstu plötu Hamrahlíðarkórsins – Ljós og hljómar, sem kom út 1978 en Þorgerður Ingólfsdóttir stjórnandi kórsins var jafnframt mágkona Harðar.
Hörður lauk A-prófi í kirkjutónlist við Tónlistarháskólann í Rínarlöndum (Staatliche Hochschule für Musik, Rheinland – Robert Schumann Institut) með góðum vitnisburði og síðasta árið í Þýskalandi starfaði hann sem kantor við Neander kirkju í Düsseldorf, hann hafði á námsárum sínum ytra komið töluvert fram á tónleikum í Þýskalandi, Englandi, Belgíu og Ítalíu (auk hér heima auðvitað) og hafði því aflað sér mikillar reynslu á tónlistarsviðinu þegar þau hjónin komu heim til Íslands að loknu náminu vorið 1981. Það var því eðlilegt að honum yrði boðin staða kantors við Hallgrímskirkju sem og hann þáði en í því fólst m.a. kórstjórnun og organistastarf auk skipulagningar tónlistarstarfs við kirkjuna, og um leið hófst vinna hans við uppbyggingu kirkjutónlistar í landinu.

Hörður Áskelsson 1981
Eitt af fyrstu verkefnum Harðar sem nýráðinn kantor við Hallgrímskirkju var að stofna Mótettukórinn sem hann stjórnaði svo sjálfur en sá kór var hugsaður sem tónleikakór sem síðar myndi einnig starfa sem kirkjukór Hallgrímskirkju. Hörður sá fyrir sér stóran kór skipaðan fagfólki sem gæti sungið stærri tónverk samhliða söng við guðþjónustur. Við Hallgrímskirkjusókn var á þessum tíma aðeins lítill kirkjukór (með háan meðalaldur) starfandi enda var kirkjan sjálf enn í byggingu og hafði ekki verið tekin í notkun, sá kór hafði sungið fyrst við messuhald í kjallara byggingarinnar og síðar í suðurálmu hennar þegar byggt hafði verið ofan á kjallarann. Hörður tók við stjórn kórsins sem söng áfram við messuhald til ársins 1986 en þá var Hallgrímskirkja vígð, og tók Mótettukórinn þá við hlutverki kirkjukórsins sem var lagður niður í kjölfarið.
Og sýn Harðar á kirkjustarfið lá lengra, hann var hvatamaður að stofnun Listvinafélags Hallgrímskirkju en markmið þess var m.a. að efla listalíf, m.a. tónleikahald í þessari stærstu kirkju landsins. Í kjölfarið varð til kirkjulistahátíð sem framan af var kennd við Hallgrímskirkju en varð síðar að Kirkjulistahátíð í Reykjavík og var haldin allt til 2020.
Hörður var strax hlaðinn verkefnum því auk organistastarfsins og kórstjórnunar kirkjukórsins og Mótettukórsins, varð hann einnig aðstoðarsöngstjóri Pólýfónkórsins um tíma og stjórnaði þeim kór reyndar einnig stundum. Þá stóð hann sjálfur í tónleikahaldi, hélt m.a. sína fyrstu sjálfstæðu orgeltónleika á Tónlistardögum Dómkirkjunnar og síðar víða um land en hann fór oft í slíkar tónleikaferðir um landsbyggðina næstu áratugina – reyndar einnig erlendis. Hann lék einleik með hljómsveitum s.s. Kammersveit Reykjavíkur og fleiri sveitum auk þess að koma fram á hinum og þessum tónlistarviðburðum með ýmsum listamönnum – stundum ásamt Ingu Rós eiginkonu sinni en einnig listafólki eins og Manuelu Wiesler, hér má nefna viðburði eins og áðurnefnda Kirkjulistahátíð en einnig Sumartónleika Skálholtskirkju og Sumarkvöld við orgelið en síðarnefndu tónlistarhátíðina stofnaði hann sjálfur til. Hörður hefur einnig frumflutt ýmis tónverk, m.a. bæði eftir Áskel Másson og Jónas Tómasson, og tónskáld hafa tileinkað honum verk sín á stundum.
Starf Harðar með Mótettukórinn var einnig með ýmsum og fjölbreyttum hætti, sem fyrr segir var sá kór framan af tónleikakór eingöngu en frá og með vígslu Hallgrímskirkju söng hann einnig við messuhald í kirkjunni undir stjórn og við undirleik Harðar sem og við ýmsar tónlistartengdar uppákomur. Hann stjórnaði jafnframt flutningi kórsins á stærri verkum og þá einnig með hljómsveit og einsöngvurum og hér má nefna Hallgrímspassíu (e. Atla Heimi Sveinsson), Baldr (e. Jón Leifs), Jólaóratoríu (e. John A. Speight), Passíu (e. Hafliða Hallgrímsson), Jóhannesarpassíu og Jólaóratoríu (e. Bach), Paulus (e. Mendelsohn) og þannig mætti áfram lengi telja.

Hörður Áskelsson
Hafi verkefnin ekki þótt nógu mörg þá stofnaði Hörðu nýjan kór, Schola Cantorum vorið 1996 en það var lítill kammerkór söngfólks úr Mótettukórnum sem söng ýmis konar kammerverk en kom að fjölmörgum stærri uppfærslum með hljómsveit og einsöngvurum á tónverkum líkt og Mótettukórinn, Stabat Mater, Edda I: sköpun heimsins og Edda II: líf guðanna (frumflutningur) (e. Jón Leifs), Jóhannesarpassía (e. Pärt) og Messías (e. Händel) eru aðeins fáein dæmi um slík verk. Báðir kórarnir gáfu út fjölmargar plötur undir stjórn Harðar og skipta þær tugum, kórarnir hafa enn fremur komið fram á tónleikum víða um heim. Þá hefur Hörður stjórnað Kammersveit Hallgrímskirkju sem hefur komið fram með kórunum í stærri verkefnum en hann stofnaði þá sveit einnig.
Meðal annarra starfa Harðar við Hallgrímskirkju má nefna að hann kom að krafti inn í söfnun fyrir orgeli í kirkjuna en orgelsjóður hafði þá verið til um árabil, hann átti stóran þátt í að 70 radda orgel (Klais) var keypt fyrir Hallgrímskirkju og var það vígt haustið 1992. Þar flutti Hörður einmitt Sónötu í þremur þáttum eftir Áskel Másson, sem tileinkaði Herði verkið. Hörður hefur einnig samið eitthvað sjálfur eins og kom fram hér að framan, mest smálög og sálma en einnig fyrir leikhús, ekki hefur mikið af því efni komið út á plötum.
Hörður hefur auk platna með Mótettukórnum og Schola Cantorum komið að fjölmörgum öðrum útgefnum plötum, bæði sem orgelleikari og stjórnandi, áður er nefndur undirleikur hans með Hamrahlíðarkórnum en hér má einnig nefna plöturnar Guðs kirkja er byggð á bjargi með Jóni Þorsteinssyni óperusöngvara (1991), Dýrð Krists – með orgelverk eftir Jónas Tómasson (1997), Óbó, horn og orgel ásamt Daða Kolbeinssyni og Joseph Ognibene (1999), Trompeteria – ásamt Ásgeiri H. Steingrímssyni og Eiríki Erni Pálssyni (2002) og Minning – ásamt Guðrúnu Birgisdóttur (2009). Einnig hefur komið út ein plata í nafni Harðar sjálfs – Nýja Klais orgelið í Hallgrímskirkju (1993) þar sem hann lék orgelverk frá ýmsum tímum á orgel kirkjunnar sem þá var nývígt. Þá eru ónefndar þær plötur sem Hörður hefur leikið inn á hjá mörgum öðrum listamönnum og hópum, hér má nefna Karlakór Reykjavíkur, Kippa Kanínus, Lögin hans Steina (Steingríms Jóns Birgissonar), Pólýfónkórinn og Kammersveit Reykjavíkur, Camillu Söderberg, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Guðlaug Kristin Óttarsson og Kirkjukór Lögmannshlíðarsóknar svo aðeins nokkur dæmi séu nefnd.
Starfsvettvangur Harðar hefur verið með miklum fjölbreytileika og hann hefur sinnt mörgum öðrum störfum og verkefnum en hér eru talin af framan. Hann fékkst um árabil við kennslu s.s. við orgelleik, kórstjórn og tónfræði við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og meðal nemenda hans þar má nefna þekkt nöfn úr tónlistarheiminum eins og Friðrik Vigni Stefánsson, Eyþór Inga Jónsson, Hrönn Helgadóttur, Kára Þormar, Douglas Brotchie og Sigrúnu Mögnu Þórsteinsdóttur. Þá gegndi hann einnig um tíma stöðu lektors í litúrgískum söngfræðum við guðfræðideild Háskóla Íslands. Og fyrst komið er inn á önnur verkefni má einnig nefna störf hans sem listrænn stjórnandi Norrænna orgeldaga, tónlistarstjóri Kristnihátíðar 2000, listrænn stjórnandi Sumarkvölda við orgelið og embætti söngmálastjóra Þjóðkirkjunnar.

Hörður við Klais orgel Hallgrímskirkju
Starfslok Harðar Áskelssonar við Hallgrímskirkju urðu með öðrum hætti en reiknað hefði mátt með eftir næstum fjögurra áratuga farsælan starfsferil en vorið 2021 sagði Hörður óvænt upp störfum eftir að honum hafði verið boðinn svokallaður heiðurslaunasamningur þar sem í raun var verið að segja honum upp, sem hann sætti sig ekki við. Eitthvað hafði þá gengið á á undan og kom í ljós að um þriggja ára skeið hefði honum verið meinaður aðgangur að fundum sóknarnefndar og framkvæmdanefndar kirkjunnar og þannig verið smám saman bolað frá störfum við kirkjuna. Ýmsum þóttu þetta kaldar kveðjur frá Hallgrímskirkju eftir alla þjónustuna og verkið sem hafði áunnist í tíð Harðar s.s. við stofnun og stjórnun kóranna, orgelsjóðinn, tónleika- og annað viðburðahald sem hann hafði haldið utan um.
Kórarnir tveir, Mótettukórinn og Schola Cantorum, voru fyrst og fremst verk Harðar enda hafði hann stofnað þá og stjórnað alla tíð, og þeir yfirgáfu nú Hallgrímskirkju og urðu nú sjálfstæðar einingar – þeir fengu inni annars staðar og gerðu samninga við tónlistarhúsið Hörpu um reglulegt tónleikahald og kemur Hallgrímskirkja þar hvergi nærri. Listvinafélag Hallgrímskirkju sem Hörður hafði átt stóran þátt í að stofna og móta hafði verið undir stjórn Ingu Rósar eiginkonu hans um skeið, og starfaði það félag áfram en í nafni Listvinafélags Reykjavíkur.
Hörður hafði án efa verið farinn að huga að starfslokum þegar kom að því að hann yfirgaf Hallgrímskirkju en hann starfaði með kórana tvo í um tvö ár til viðbótar en var þá kominn að sjötugu, af því tilefni var hann heiðraður með ýmsum hætti með tónleikahaldi og fleira.
Eins og vænta má hefur Hörður unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga í gegnum ævistarf sitt, kórar hans hafa unnið til verðlauna erlendis, hann hefur tvívegis hlotið Menningarverðlaun DV en margoft verið tilnefndur til þeirra, hann hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin í flokknum flytjandi ársins sem stjórnandi Mótettukórsins (2002) og hlaut nafnbótina Heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2024, hann hefur verið borgarlistamaður Reykjavíkur-borgar (2002), hlotið heiðursverðlaun Brunabótafélags Íslands, menningarverðlun VÍS, Íslensku bjartsýnisverðlaunin (2006) og fálkaorðuna.
Hörður hefur aukinheldur sinnt fjölmörgum tónlistartengdum félagsstörfum í gegnum tíðina, hann var í stjórn Listvinafélags Reykjavíkur, stjórn Kirkjulistahátíðar, stjórn norræna kirkjutónlistarráðsins, formaður ritnefndar Organistablaðsins, í sálmabókarnefnd Þjóðkirkjunnar, stjórn Félags íslenskra orgelleikara og stjórn Tónskóla Þjóðkirkjunnar svo nokkur dæmi séu nefnd.
Af framangreindu má sjá að verk Harðar Áskelssonar liggja víða og e.t.v. hitti tónskáldið Leifur Þórarinsson naglann á höfuðið þegar hann sagði um Hörð í blaðaviðtali að hann hefði á skömmum tíma unnið stórvirki á sviði íslenskrar kirkjutónlistar, það rammar í raun inn það sem reifað hefur verið hér að framan.














































