Höskuldur Skagfjörð (1917-2006)

Höskuldur Skagfjörð

Leikarinn Höskuldur Skagfjörð Sigurðsson var fæddur (1917) og uppalinn í Skagafirðinum en fluttist suður yfir heiðar á unglingsárum og átti síðan eftir að fara í leiklistarskóla Lárusar Pálssonar og síðan í eins árs leiklistarnám í Danmörku áður en hann hóf að leika, fyrst við Þjóðleikhúsið og síðan hjá Leikfélagi Reykjavíkur á sjötta áratugnum. Starfsferill hans í leiklistinni sneri þó lengstum að því að leikstýra víða um land, oft hjá áhugaleikhúsum og einnig með sinn eigin leikhóp – þá fór hann einnig stundum með revíuhópum um landsbyggðina.

Höskuldur þótti góður upplesari og starfaði lengi í hlutastarfi hjá Ríkisútvarpinu við þáttagerð og las gjarnan ljóð þar. Svo fór að árið 1982 gaf hann út sjálfur kassettu með upplestri sínum en hann var hljóðritaður í Stemmu. Á annarri hlið kassettunnar er að finna ljóð úr ýmsum áttum við píanó undirleik Stefans Ashkenazy en hin hliðin hefur að geyma upplestur hans á völdum köflum úr Nonna-bókunum eftir Jón Sveinsson. Höskuldur þótti einnig liðtækur málari, var að mestu sjálfmenntaður í þeirri listgrein og hélt að minnsta kosti eina málverkasýningu. Ævisaga hans, Frá kúarektor til leikstjóra kom út árið 1997.

Höskuldur lést vorið 2006 en hann var þá kominn fast að níræðu.

Efni á plötum