
Höskuldur Þórhallsson
Tónlistarmaðurinn Höskuldur Þórhallsson lék með ýmsum danshljómsveitum á sínum tíma en hann var fjölhæfur hljóðfæraleikari, lék bæði danstónlist og klassíska.
Höskuldur Þórhallur Lagier Þórhallsson eins og hann hét fullu nafni, fæddist sumarið 1921 og bjó fyrstu sextán ár ævi sinnar í Þýskalandi hjá móður sinni en þar nam hann sellóleik. Árið 1937 kom hann til Íslands til föður síns, Þórhalls Árnasonar sellóleikara og nam í framhaldinu hjá honum og léku þeir feðgar stundum saman á tónleikum hér á landi á selló. Einnig var hann fljótlega kominn í Útvarpshljómsveitina.
Það var hins vegar danstónlistin sem fangaði huga Höskuldar, og fljótlega var hann farinn að leika á trompet með hljómsveitum á Hótel Borg, sveitum sem ýmist voru kallaðar Borgarbandið eða eftir hljómsveitastjórunum – þannig var hann í hljómsveit Jack Quinet og þegar sá fór af landi brott hóf Höskuldur að leika með hljómsveit Þóris Jónssonar sem tók við á Borginni (1942), sú sveit er reyndar tímamótahljómsveit hérlendis því hún var fyrsta alíslenska danshljómsveitin / djasshljómsveitin, fram að því höfðu alltaf verið útlendingar í öllum sveitum að einhverju eða öllu leyti.
Síðar tóku við á næstu árum hljómsveit Óskars Cortes í Iðnó, Ingólfscafe og síðar Röðli, hljómsveit Jónatans Ólafssonar á Hótel Birninum í Hafnarfirði og síðar Röðli, hljómsveit Carls Billich á Hótel Borg og Þ.Ó. kvintettinn í Listamannaskálanum en einnig starfrækti Höskuldur sjálfur um tíma hljómsveit á Röðli árið 1945. Þá starfaði hann um skeið í hljómsveit FÍH og lék þar á pákur en í hinum sveitunum að framan lék Höskuldur ýmist á trompet eða trommur. Höskuldur var í Vestmannaeyjum um tíma í upphafi fimmta áratugarins og lék þá með hljómsveitum Guðmundar H. Norðdal og Guðjón Pálssonar og sjálfsagt hefur hann starfað með fleiri sveitum en aðeins finnast heimildir um fjölmenna hljómsveit Karls Jónatanssonar sem hann starfaði með í Vetrargarðinum árið 1959. Eftir það virðist sem Höskuldur hafi að mesti lagt hljóðfæraleik á hilluna hverju sem um er að kenna en fáar heimildir er að finna um líf hans og störf eftir 1960, hann hafði þá eitthvað fengist við kennslu og mun Viðar Alfreðsson trompetleikari hafa numið af honum í upphafi.
Höskuldur lést árið 1979 eftir langvarandi heilsubrest á fimmtugasta og áttunda aldursári, líkast til má rekja stuttan tónlistarferil hans að einhverju leyti til heilsuleysis – hann hafði t.a.m. átt við berklaveikindi að stríða á yngri árum og hafði þá m.a þurft að taka sér hlé frá spilamennsku um tíma.














































