
Thomsen húsið – Hótel Hekla
Hótel Hekla var starfrækt við Lækjartorg um tuttugu ára skeið á fyrri hluta 20. aldarinnar en saga hússins er þó miklu lengri, þar spiluðu hljómsveitir með hléum en staðurinn mun fyrst og fremst hafa verið þekktur fyrir sukk og svínarí á stríðsárunum og hafði þá misst glansinn að mestu leyti.
Saga hússins nær allt aftur til aldamótanna 1800 en það var reist af kaupmanninum H. Th. A. Thomsen og var í raun tvö hús lengi vel, pakkhús verslunarveldis hans og íbúðarhús en árið 1889 var önnur hæð byggð ofan á húsin og gerð að verslunarhúsi, og gekk þá undir nafninu Thomsen Magasin – þá hafði Ditlev Thomsen (yngri) tekið við rekstrinum af föður sínum (H. Th. A. Thomsen) sem þá var látinn en Ditlev Thomsen (eldri) hafði stofnað verslunarfélagið löngu fyrr. Thomsen Magasin stóð við Hafnarstræti 20 en þegar það var gert að verslunarhúsnæði var því snúið þannig að framhliðin sneri að Lækjartorgi.
Thomsen verslunarfélagið átti sín viðskipti að mestu leyti við Þýskaland og þegar heimsstyrjöldin fyrri skall á árið 1914 lokaðist fyrir öll viðskipti þangað, það var til þess að Thomsen seldi Guðmundi Eiríkssyni heildsala húsið en Guðmundur Kr. Guðmundsson eignaðist það síðan árið 1923, breytti húsakynnunum og hóf þar hótelrekstur, fyrst undir nafninu Gistiheimilið Reykjavík og svo frá og með 1924 undir heitinu Hótel Hekla.

Thomsen húsið 1906
Hótelherbergin voru á efri hæðinni en niðri var veitingasalur og þar léku tónlistarmenn og hljómsveitir bæði fyrir dansi og einnig síðdegistónlist. Það mun hafa verið mestmegnis um helgar sem dansleikir fóru fram í húsinu en á virkum dögum var meira um að félagasamtök og klúbbar leigðu salinn til skemmtana- og fundahalds þar sem tónlist kom yfirleitt ekki við sögu.
Fremur litlar upplýsingar er að finna um dansleikjahald og spilamennsku á Hótel Íslandi, á árunum 1928 til 1930 virðist sem sérstakar húshljómsveitir hafi starfað þar, m.a. undir stjórn Poul Bernburg en Karls Matthíassonar en mestmegnis virðist sem stakir tónlistarmenn hafi leikið þar ýmist einir eða í smærri sveitum eftir hendinni. Á því tímabili var þó reyndar boðið upp á tónlist öll kvöld af því er virðist. Þess má og geta að Bandalag íslenskra listamanna var stofnað í húsinu árið 1928. Árið 1930 opnaði Hótel Borg skammt frá og tók þegar að bjóða upp á lifandi tónlist, og við það mun Hótel Hekla að mestu hafa hætt að bjóða upp á hljómsveitir í bili að minnsta kosti, eitthvað glæddist þó til í þeim efnum þegar leið á fjórða áratuginn, og þá bauð staðurinn aftur upp á tónlist.

Niðurrif hússins 1961
Við hernámið vorið 1940 urðu miklar breytingar á ímynd Hótel Heklu, og reyndar var staðurinn vettvangur handtöku þýskra skipbrotsmanna þegar breski herinn sótti þá þangað að morgni hernámsdagsins 10. maí. Og í stríðinu má segja að Bretarnir hafi yfirtekið staðinn því þeir sóttu hann mikið og smám saman fór glansinn af hótelinu sem varð að alræmdri hermannabúllu og þar mun m.a. hafa farið fram sala á vændi eftir því sem sögur segja, slagsmál voru þar jafnframt tíð.
Haustið 1941 keypti Guðmundur H. Þórðarson stórkaupmaður (Hf. Hekla) hótelið og rak það um skeið, hótelrekstri var líklega hætt vorið 1942 og ári síðar keypti bæjarfélagið húsnæðið á uppboði en skemmtistaður var rekinn í húsinu allt þar til þá. Um tíma var húsnæðislaust fólk búsett í því sem og verkamenn sem þá unnu við að setja upp hitaveitu í Reykjavík en síðar voru þar bæjarskrifstofur.
Hótel Hekla (Thomsen Magasin) var að lokum rifið árið 1961 og þá mun einn gárunganna hafa ort svohljóðandi:
Nú drekkum við ekki lengur á Hótel Heklu,
né háttum ýmislegt kvenfólk niður á dívana.
Það stafar þó hvorki af kvenfólks- né áfengiseklu,
heldur einungis af því að það er búið að ríf‘ana.
Fleiri hótel hafa borið nafnið Hótel Hekla, s.s. í Hafnarfirði, á Brjánsstöðum á Skeiðum, við Rauðarárstíg og jafnvel víðar en Hótel Hekla við Hafnarstræti / Lækjartorg var vísast það eina sem bauð upp á tónlist.














































