
Hraun
Hljómsveitin Hraun (einnig stundum ritað Hraun!) starfaði um nokkurra ára skeið en hún var skipuð ungum tónlistarmönnum sem þá voru að skapa sér nafn einnig á öðrum vettvangi – og e.t.v. galt sveitin að einhverju leyti fyrir það. Hraun gaf út nokkrar plötur sem sýndu tvær hliðar á sveitinni, annars vegar grallaraskapinn og léttleikann sem einkenndi hana á sviði og hins vegar alvarlegri hlið í anda amerískrar þjóðlagatónlistar.
Hraun mun hafa verið stofnuð til að spila í partíi á Kaffi Vín á Laugavegi þann 16. júní 2003, það voru á ferð Svavar Knútur Kristinsson gítarleikari og söngvari Loftur S. Loftsson bassaleikari, Jón Geir Jóhannsson trommuleikari og Guðmundur Stefán Þorvaldsson gítarleikari, líklega sungu þeir þó meira og minna allir. Samstarfið gekk vonum framar og framhald varð á því og var þá hugmyndin fyrst og fremst að vinna með frumsamda tónlist Svavar Knúts þótt koverlagaprógramm úr partíinu á Kaffi Vín yrði alltaf meira og minna til staðar.
Hraun spilaði strax nokkuð þetta árið, þeir félagar voru töluvert á Nelly‘s og svo Grandrokk en þar lék sveitin m.a. á áramótadansleik. Strax fyrir jólin 2003 kom út fyrsta plata sveitarinnar sem var jólaplata og var hljóðrituð á skömmum tíma um haustið, reyndar var um óopinbera útgáfu að ræða og þeir félagar áttu eftir að halda þeirri hefð á lofti að gefa út slíkar jólaplötur fyrir vini og velunnara, fyrst um sinn í um 70 eintökum en þeim eintökum átti síðan eftir að fjölga eftir því sem árin liðu. Þessi fyrsta jólaplata Hraun bar líklega titilinn Jólaplatan 2003 en upplýsingar um þá útgáfu og aðrar jólaplötur sveitarinnar eru reyndar af skornum skammti.
Sveitin hélt uppteknum hætti árið 2004, hún þótti fanga partístemmingu í spilamennsku sinni og lagði áherslu á ábreiðulög af ýmsu tagi rétt eins og ballsveitir gerðu en þó með þeim hætti að ábreiðurnar voru óhefðbundnar, He-man lagið var t.a.m. varla á prógrammi hjá mörgum sveitum um það leyti frekar en lagið Pósturinn Páll og því var grallaraskapurinn áberandi í spilamennskunni og mikið fjör tengt því, samhliða þeim skemmtilegheitum laumaði sveitin inn frumsömdu efni Svavars Knúts sem var með allt öðrum hætti en sú tónlist var þjóðlagaskotin og allt annars eðlis og því má segja að Hraun hafi leikið tveimur skjöldum hvað tónlistina varðar.

Hraun
Hraun lék mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu, á stöðum eins og áðurnefndum Kaffi Vín og Grandrokk en einnig á Ellefunni, Jóni forseta, Kaffi List og víðar, og svo úti á landi en sveitin átti sér einnig heimavöll vestur á Ísafirði og lék oft þar enda hafði sveitin að geyma tvo Vestfirðinga, Svavar Knút og Jón Geir.
Haustið 2004 kom út önnur jólaplata með sveitinni og samhliða útgáfu hennar hélt sveitin eins konar jólatónleika og hélt svo sínu striki í spilamennskunni bæði á höfuðborgarsvæðinu og fyrir vestan. Á nýju ári fór minna fyrir þeim félögum framan af ári, sveitin kom fram á Aldrei fór ég suður fyrir vestan en samhliða því voru þeir að hljóðrita efni ætlað til útgáfu. Í viðtölum sagðist sveitin vera að vinna að tveimur plötum samtímis, og um vorið 2005 kom sú fyrri út og bar nafnið Partýplatan Partý og hafði að geyma galsakenndu hliðina á sveitinni – upplýsingar um þá plötu eru takmarkaðar. Hin platan, sem búið var að opinbera að bæri nafnið I can‘t believe it‘s not happiness, kom þó ekki út og seinkaði útgáfu hennar enda var hún öllu meira unnin en partíplatan.
Síðari hluta ársins voru Hraun-liðar meira á ferðinni og léku þá t.a.m. á styrktartónleikum til styrktar fátækum börnum annars vegar og Andspyrnu – félagsskaps anarkista hins vegar, einnig lék sveitin á Djúpuvíkurhátíð fyrir vestan, Ormsteiti fyrir austan, á Menningarnótt í Reykjavík, á Aftanfestivali á Suðurnesjunum og víðar. Reyndar stóð Svavar Knútur í stórræðum þetta sumar því um þetta leyti sigraði hann Trúbadorakeppni Rásar 2 með lagið Dansa, um haustið sigraði sveitin svo lagakeppni sem Gigg.is stóð fyrir og ætlaði í kjölfarið að senda sigurlag sitt í undankeppni Eurovision – en lag sveitarinnar komst ekki í úrslit undankeppninnar hér heima sem haldin var eftir áramótin 2005-06. Fyrir jólin sendi Hraun frá sér sína þriðju jólaplötu samhliða jólatónleikum sem sveitin hélt.
Árið 2006 fór mun minna fyrir sveitinni en ætlað var en ástæðurnar fyrir því voru nokkrar, m.a. þær að Jón Geir trymbill Hrauns hafði gengið til liðs við Ampop og hafði þar næg verkefni, m.a. við upptökur og spilamennsku erlendis. Af sömu ástæðu seinkaði útgáfu plötunnar enn frekar en sveitin sendi þó frá sér lag (Clementine) af henni á safnplötunni 100% sumar: 20 brennheit ný sumarlög, þeir félagar spiluðu eitthvað saman opinberlega síðsumars s.s. á rokktónleikum í Iðnó, í Stúdentakjallarnum og fyrir vestan. Um haustið kom svo líklega út jólaplata með Hrauni líkt og áður og á þeim tímapunkti var upplagið orðið um 200 eintök.

Hraun í jólabúningi
Í blaðaviðtali snemma árs 2007 sögðu meðlimir sveitarinnar að platan væri loks að koma út, og það varð raunin um vorið. Hún bar titilinn I can’t believe it’s not happiness eins og áður hefur fram komið og kom út á vegum útgáfufyrirtækisins Dimmu, og voru lögin á henni bæði á ensku og íslensku. Þar var m.a. að finna lagið Ástarsaga úr fjöllunum sem hafði verið samið út frá samnefndri bók Guðrúnar Helgadóttur barnabókahöfundar, sem og lagið Clementine sem hafði hlotið nokkra spilun sumarið á undan. Útgáfutónleikar voru haldnir í Þjóðleikhúskjallaranum og í viðtölum kom fram að platan væri sú fyrri af tveggja platna verkefni og framhaldsins væri að vænta síðar, sá þjóðlagakeimur sem fyrr er nefndur var eðlilega í fararbroddi á plötunni en gagnrýnandi Morgunblaðsins virtist ekkert yfir sig hrifinn af tónlistinni og virtist ósáttur við að hún væri langt frá þeirri galgopatónlist sem var einkenni sveitarinnar á sviði skemmtistaða og ballhúsa. Lagið Impossible af plötunni kom svo út á safnplötunni Pottþétt 44 um haustið.
Í kjölfar útgáfu plötunnar lék Hraun töluvert um sumarið og haustið 2007, hér má nefna tónleika í Sólheimakirkju og á Iceland Airwaves. Um haustið fór sveitin svo austur á firði til að hljóðrita meira nýtt efni á milli þess sem þeir félagar léku á öldurhúsum höfuðborgarsvæðisins, um það leyti vakti sveitin athygli fyrir að komast í 20 hljómsveita úrslit í tónlistarkeppni BBC World service í Bretlandi, með lagið Ástarsögu úr fjöllunum – og reyndar komst lagið alla leið í fimm laga úrslit í þeirri keppni þar sem þeir fluttu lagið í sjónvarpi ytra. Um var að ræða tónlistarkeppni tengda heimstónlist en hljómsveitir frá 88 löndum tóku þátt í henni. Um þetta var sveitin orðin sex manna, auk þeirra Svavars Knúts, Jóns Geirs, Lofts og Guðmundar Stefáns höfðu Gunnar Benediktsson (Gunnar Ben) óbó- og hljómborðsleikari og Hjalti Stefán Kristjánsson flautu- og mandólínleikari bæst í hópinn. Reyndar er varla hægt að segja að einhver ákveðin hljóðfæri hafi fylgt hverjum og einum því meðlimir sveitarinnar spiluðu flestir á flest hljóðfæri. Líkt og áður kom út jólaplata með sveitinni með tilheyrandi húllumhæi.
Nýtt ár (2008) gekk í garð og allt gekk sinn vanagang, Hraun lék töluvert opinberlega á stöðum eins og Organ, Gauknum og Nasa, og svo á Aldrei fór ég suður um páskana. Sveitin hélt áfram að hljóðrita nýja efnið næstu mánuðina en Svavar Knútur var um það leyti einnig farinn að vinna meira með eigin sólótónlist, m.a. söng hann lag á plötu sem var tileinkuð aldarafmæli Steins Steinarr og líklega kom hljómsveitin fram á tónleikum í tengslum við það verkefni og einnig á nokkrum tónleikum með Svavari Knúti sem fór í tónleikaferð um landið ásamt fleiri listamönnum.
Nýja plata sveitarinnar, Silent treatment kom út um sumarið en flest lög hennar voru grunnar eftir Svavar Knút sem sveitin byggði ofan á. Hraun hélt útgáfutónleika á Rúbin við Öskjuhlíð og lék á nokkrum tónleikum síðsumars s.s. á Græna hattinum og víðar til að fylgja plötunni eftir en hún hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu og þokkalega einnig í tímaritinu Monitor, á henni var m.a. að finna lagið Dansa sem Svavar Knútur hafði sigrað trúbadorakeppnina á Rás 2 með þremur árum fyrr. Á plötunni mátti heyra í nokkrum gestahljóðfæraleikurum og -söngvurum, og meðal þeirra var Þráinn Árni Baldvinsson sem lék á búsúkí en þeir Jón Geir höfðu áður starfað saman í hljómsveitum eins og Klamidíu X og Kalki.

Hraun
Snemma árs 2009 komst Hraun hins vegar í fréttir fjölmiðla þegar segja má að sveitin hafi sprungið í loft upp á sviðinu á Rósenberg en ágreiningur milli meðlima hennar vegna brotins mandólíns í bland við þreytu leiddi til hávaðarifrildis innan sveitarinnar og við áhorfendur, þar sem einhverjir Hraun-liðar lýstu yfir að sveitin væri hætt störfum. Þeir sem í hlut áttu náðu fljótlega fullum sáttum en nokkur tími leið þar til sveitin lék næst, um sumarið 2009 – ástæðan var þó líklega fyrst og fremst annir meðlima sveitarinnar. Og ljóst var að sveitin myndi ekki vera starfhæf næstu mánuðina því Svavar Knútur fór þá um sumarið til Ástralíu og hugðist dvelja þar til vorsins 2010, þeir félagar reiknuðu með að vinna að tónlist í gegnum Internetið en þeir voru þá með plötu í kollinum sem þá yrði þriðja platan í þríleik. Á meðan dvöl hans í Eyjaálfu stóð stofnuðu þeir Jón Geir, Gunnar Ben og áðurnefndur Þráinn Árni Baldvinsson nýja sveit – Skálmöld, sem átti eftir að taka alla þeirra orku næstu árin og vel það.
Hraun átti reyndar eftir að birtast á Rósenberg á nýjan leik um vorið 2010 þegar Svavar Knútur kom heim, og síðan kom sveitin fram á dagskrá Menningarnætur síðsumars en það var að líkindum í síðasta skipti sem Hraun kom saman og markar það endalok sveitarinnar – þar til annað kemur í ljós.














































