
Hrefna Unnur Eggertsdóttir ung að árum
Píanóleikarinn og -kennarinn Hrefna Unnur Eggertsdóttir hefur staðið í fremstu röð um árabil, leikið á ótal tónleikum sem undirleikari einsöngvara og meðleikari tónlistarfólks af ýmsu tagi auk annarra tónleikatengdra verkefna, hún hefur jafnframt kennt á píanó um langa tíð.
Hrefna Unnur Eggertsdóttir er fædd 1955, ættuð úr Garðinum og steig sín fyrstu skref í Tónlistarskólanum í Keflavík. Þaðan lá leið hennar í Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem hún nam píanóleik hjá Arndísi Steingrímsdóttur, Jóni Nordal og Árna Kristjánssyni, hún lauk píanókennaranámi 1975 og einleikaraprófi ári síðar á sama tíma og eiginmaður hennar Kjartan Óskarsson klarinettuleikari og að námi loknu hér heima héldu þau til framhaldsnáms til Vínar í Austurríki og voru þar á árunum 1976-81.
Hrefna var farin að koma fram sem píanóleikari opinberlega ung að árum og var reyndar strax orðin nokkuð áberandi á námsárum sínum hér heima og svo í beinu framhaldi af því. Hún fór m.a. ásamt Kjartani og Margréti Bóasdóttur söngkonu um landsbyggðina sumarið eftir útskrift 1976, og lék á fjölmörgum tónleikum það ár auk þess að koma fram í útvarpssal – og reyndar hefur leikur hennar margoft verið hljóðritaður í útvarpssal og verið á dagskrá Ríkisútvarpsins.
Á námsárum sínum í Austurríki kom hún heim í fríum og lék þá á tónleikum bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landsbyggðinni, hér má nefna afmælishátíð í Neskaupstað og tónleika með Margréti Pálmadóttur söngkonu sumarið 1979, söngskemmtunir og hádegistónleika (ásamt Sigurði Snorrasyni klarinettuleikara) og í nokkur skipti á Selfossi en Kjartan eiginmaður hennar átti ættir að rekja þangað.
Að námi loknu 1981 bjuggu þau hjónin og störfuðu í Færeyjum einn vetur við tónlistarkennslu og tónleikahald en komu heim vorið 1982 og hafa verið á Íslandi síðan. Síðan þá hefur hún fengist við píanókennslu við Tónlistaskóla FÍH, Tónlistarskólann í Reykjavík og Tónlistarskóla Kópavogs, og kennt ýmsum síðar þekktum píanóleikurum.

Hrefna Unnur Eggertsdóttir
Hrefna hefur leikið á tónleikum alla tíð síðan og strax á níunda áratugnum lét hún að sér kveða á því sviði. Fyrst um sinn var hún reyndar ekki mjög áberandi, starfaði eitthvað með Kammermúsíkklúbbnum en hóf svo að leika með hinum og þessum einsöngvurum, hér má nefna Sigríði Valgerði Gestsdóttur sem hún starfaði töluvert með um miðjan níunda áratuginn og hélt tónleika með bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi en síðar með söngvurum eins og Kristínu Sædal, Signýju Sæmundsdóttur, Sigrúnu Jónsdóttur, Þórunni Guðmundsdóttur, Álfheiði Hönnu Friðriksdóttur, Margréti Stefánsdóttur og Hlín Pétursdóttur svo nokkur dæmi séu nefnd, allt fram undir 2010. Einnig hefur hún starfa með hinum og þessum hljóðfæraleikurum í gegnum tíðina við tónleikahald – Björn Árnason fagottleikari, Þórarinn Már Baldursson lágfiðluleikari, Dagný Marinósdóttir flautuleikari, Sturlaugur Jón Björnsson hornleikari, Ella Vala Ármannsdóttir hornleikari, Vilhjálmur Ingi Sigurðarson trompetleikari og svo auðvitað eiginmaður Hrefnu, Kjartan Óskarsson klarinettuleikari eru dæmi um samstarfsfólk hennar.
Í gegnum tíðina hefur Hrefna leikið margoft á Háskólatónleikum og tónleikum tengdum Tónlistarskólanum í Reykjavík, m.a. með burtfararnemendum, þá hefur hún einnig leikið bæði ein og í samstarfi við fjölmarga aðra á Tíbrár-tónleikum í Salnum í Kópavogi, Sumartónleikaröð í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar, Tónlistardögum Dómkirkjunnar, Sumartónleikum við Mývatn og hinum ýmsum kammertónleikum um allt land. Hrefna var um tíma undirleikari Söngsveitarinnar Fílharmóníu og hefur einnig leikið undir söng annarra kóra, hún hefur jafnframt komið fram með Kammerhópnum Polaris og leikið erlendis með honum og fleiri sveitum svo aðeins fáein dæmi séu nefnd um verkefni hennar í gegnum tíðina.
Eðli máli samkvæmt hefur Hrefna starfað mest með Kjartani en hjónin sendu frá sér plötu haustið 1994 sem hafði að geyma verk eftir Victor Urbancic, Gustav Jenner og Joseph Rheinberger. Platan hlaut góða dóma í Morgunblaðinu. Þar fyrir utan hefur Hrefna leikið á nokkrum útgefnum plötum, hér má nefna plötu Jóhanns Helgasonar – Kvöld við lækinn (1987), plötu Ólöfu Kolbrúnar Harðardóttur og Egils Ólafssonar – Ég vildi (1989), plötu Kristínar Sædal – Draumalandið (1994), afmælisplötu Tónlistarskólans í Reykjavík – Tónlistarskólinn í Reykjavík 1930-2000: 70 ára afmælisútgáfa (2000) og plötuna Gömul ljósmynd: sönglög eftir Tryggva M. Baldvinsson (2006).
Hrefna hefur síðustu árin lagt opinbera spilamennsku að mestu leyti til hliðar.














































