Hreiðar Pálmason (1940-)

Hreiðar Pálmason

Baritónsöngvarinn Hreiðar Pálmason var einsöngvari um áratuga skeið með Karlakór Reykjavíkur og Karlakór Akureyrar þar á undan, og hefur ein plata komið út með honum.

Hreiðar Pálmason er Suður-Þingeyingur að uppruna, fæddur haustið 1940 og uppalinn í Reykjadal og þar steig hann sín fyrstu spor í sönglistinni en hann hóf að syngja með Karlakór Reykdæla aðeins sextán ára gamall. Hann flutti til Akureyrar og söng með Karlakór Akureyrar um tólf ára tímabil en með þeim kór söng hann margsinnis einsöng á tónleikum á norðanverðu landinu en kórinn fór einnig út fyrir landsteinana. Um tíma var hann einnig í kvartett sem starfaði innan kórsins.

Árið 1971 flutti Hreiðar suður til Reykjavíkur og hóf þá að syngja með Karlakór Reykjavíkur. Ekki leið á löngu uns hann var farinn að syngja einsöng einnig með þeim kór á tónleikum og það átti hann eftir að gera næstu áratugina, bæði hér heima og einnig á söngferðalögum kórsins erlendis s.s. til Bandaríkjanna, Kína og Norðurlandanna. Eftir að hann fluttist suður naut hann söngkennslu hjá Kristni Hallssyni um tveggja ára skeið en það er líklega hans eina formlega söngmenntun.

Hreiðar hefur einnig fengist við söng í smærri sönghópum, hann var t.a.m. í Kommakvartettnum svokallaða sem kom fram á skemmtunum alþýðubandalagsins og einnig í Tónabræðrum, sönghóp sem söng m.a. í jarðarförum en einnig á söngskemmtunum. Þess má svo geta að hann söng í nokkur skipti einsöng á tónleikum Karlakórs Akureyrar á níunda áratugnum og einnig hefur hann sungið við messuhald í kirkjum.

Fyrsta platan sem Hreiðar söng inn á var með Karlakór Reykjavíkur, það var árið 1974 á plötu sem var helguð tónskáldunum Sveinbirni Sveinbjörnssyni og Sigfúsi Einarssyni, og ári síðar kom svo út önnur plata með kórnum tileinkaður tónsmíðum Emils Thoroddsen og Björgvins Guðmundssonar – SG-hljómplötur gaf báðar þessar plötur út en hann átti eftir að syngja inn á fjölmargar plötur með kórnum næstu árin. Hann átti enn fremur eftir að syngja inna á plötu Skagfirsku söngsveitarinnar – Ljómar heimur (1990) og á plötunni Við eigum samleið: Lög eftir Sigfús Halldórsson (1996) en einnig hefur hann komið við sögu á plötu Greifanna – Blautur draumur, þar sem hann söng í laginu Rútan. Ein plata hefur komið út í nafni Hreiðars sjálfs, það var árið 2005 en sú plata hafði m.a. að geyma lög sem höfðu verið hljóðrituð í Ríkisútvarpinu og ekki komið út áður – þar söng Hreiðar einsöng ásamt Karlakór Reykjavíkur og Karlakór Akureyrar.

Efni á plötum