
Hreinn Líndal
Óperusöngvarinn Hreinn Líndal var vel þekktur á sínu sviði um tíma en hann bjó og starfaði víða um Evrópu, óregla olli því að hann kom heim og dvaldi hér um hríð en hann náði sér á strik á nýjan leik og segja má að nýr ferill hafi beðið hans vestan Atlantsála þar sem hann blómstraði eftir það. Þrjár plötur hafa verið gefnar út með söng hans.
Hreinn Líndal Haraldsson tenór er fæddur í Reykjavík snemma árs 1937 en ólst upp í Keflavík þar sem hann hóf söngferil sinn, hann gekk 17 ára gamall til liðs við Karlakór Keflavíkur og var þar yngstur meðlima en hann söng í fyrsta sinn einsöng í messu á aðfangadagskvöld í Keflavíkurkirkju 1957, og svo með karlakórnum árið eftir. Um það leyti hóf hann söngnám hjá Maríu Markan sem þá bjó í Keflavík og sá hún fljótlega að þar var efni á ferðinni og hafði milligöngu um að Hreinn kæmist í söngnám á Ítalíu en sjálf kenndi hún honum um tveggja ára skeið.
Hreinn fór því til náms í Róm haustið 1960 og varð fyrstur Keflvíkinga til að nema söng erlendis, en sumarið á undan hafði hann sungið einsöng í útvarpssal í fyrsta sinn og var Fritz Weisshappel undirleikari hans þar. Hreinn dvaldist því á Ítalíu næstu árin en hann lauk námi við skólann árið 1966 og naut eftir það einkakennslu á Ítalíu um tveggja ára tímabil. Hann kom þó heim til Íslands reglulega í fríum og söng þá eitthvað opinberlega – m.a. hélt hann sína fyrstu einsöngstónleika í Kristskirkju (Landakotskirkju) árið 1967, og einnig hélt hann tónleika á Akranesi, Akureyri, Húsavík og svo í heimabænum Keflavík.
Samhliða námi sínu í Róm hafði Hreinn sungið þar á tónleikum og tekið þátt í óperuuppfærslum en að náminu loknu starfaði hann áfram á Ítalíu áður en hann færði sig um set og starfaði um tíma í Sviss og Þýskalandi áður en hann hóf störf við Vínaróperuna í Austurríki þar sem hann söng m.a. í óperum eins og Madame Butterfly (Puccini), Falstaff (Verdi) o.fl. og síðan átti hann eftir að starfa í Bretlandi og söng þá líklega mest fyrir BBC. Á þessum tíma átti Hreinn orðið í nokkrum vandræðum vegna áfengisdrykkju en þekkt er að ýmsar freistingar eru í kringum skemmtanabransann, og svo fór að verkefnum fækkaði verulega vegna þeirra vandamála.

Hreinn Líndal um 1960
Svo fór að hann kom heim til Íslands um áramótin 1974-75 vegna verkefnaskorts af þeim sökum og hér bjó hann um tíma á meðan hann kom undir sig fótunum á nýjan leik, hann bjó þá í heimabænum Keflavík og söng eitthvað opinberlega s.s. við messuhald, á fræðslu- og skemmtikvöldum hjá ferðaskrifstofum og þess háttar. Hann söng einnig einsöng á tónleikum með t.d. Karlakór Reykjavíkur og Dómkórnum, og var svo meðal fjölmargra listamanna sem heiðruðu Maríu Markan á sjötugs afmæli hennar með tónleikum en Hreinn sótti um það leyti aftur söngtíma hjá Maríu til að ná sér á strik á nýjan leik. Þeir Ólafur Vignir Albertsson píanóleikari fóru í tónleikaferð um Suðurland sumarið 1975 en þeir Ólafur Vignir áttu eftir að starfa töluvert saman, um haustið héldu þeir svo einsöngstónleika í Austurbæjarbíói. Hreinn gaf út plötu árið 1976 undir merkjum Steina-útgáfunnar en platan bar nafn hans, hún hafði að geyma sextán lög – blöndu íslenskra og ítalskra sönglaga og þar lék Ólafur Vignir undir söng hans.
Næstu árin stóð Hreinn í verslunarrekstri sem gekk ekki vel, hann fékkst einnig við söngkennslu í Keflavík og stjórnaði þar einnig barnakór en minna fór fyrir honum á söngsviðinu um tíma, rödd hans heyrðist oft í Útvarpinu og eitthvað var hann að syngja á skemmtikvöldum sem fyrr er getið en einnig við jarðarfarir.
Baráttan við Bakkus var þyrnum stráð og Hreinn átti í vandræðum í þeirri baráttu en tjáði sig opinskátt um vandamálið í viðtölum, og þegar hann hélt loks tónleika í Austurbæjarbíói árið 1979 tileinkaði hann þá SÁÁ eftir að hafa farið í áfengismeðferð. Hann stefndi þá á að fara aftur erlendis til að endurreisa söngferilinn og fékk tilboð frá Austurríki, Danmörku og Þýskalandi og sinnti í framhaldinu þeim verkefnum að einhverju leyti en málin gengu ekki alltaf eins og til var ætlast.
Það var svo líklega árið 1981 sem Hreinn fór utan til Bandaríkjanna í áfengismeðferð, og eftir það fóru hlutirnir að ganga betur. Hann náði sér betur á strik, hóf að sækja einkatíma hjá söngkennurum og ílengdist vestanhafs, söng víða – fyrst á Íslendingaslóðum og svo víðar um Ameríku. Hann var fljótlega kominn með umboðsmann og svo átti hann eftir að setjast að í Minneapolis og festa þar rætur næstu árin, hann söng töluvert í kirkjulegum athöfnum og jafnvel sjónvarpsmessum (m.a. hjá Billy Graham) en þess má geta að Hreinn hafði gerst kaþólikki á námsárum sínum á Ítalíu, einnig söng hann í óperuuppfærslum í Minnesota og svo víðar um Bandaríkin. Þá var hann duglegur að syngja á fjáröflunarsamkomum, m.a. hjá Ronald Reagan þáverandi Bandaríkjaforseta árið 1985.

Hreinn Líndal
Árið 1984 kom út plata með Hreini úti í Bandaríkjunum þar sem hann söng ásamt barnakórnum Angelica Cantanti en platan bar nafn þeirra – Hreinn Líndal and Angelica Cantanti. Hreinn var á sínum tíma fremur ósáttur við dreifingu og viðtökur plötunnar hér á landi en hún hlaut þó þokkalega dóma bæði í Morgunblaðinu og DV, platan var svo endurútgefin á geisladisk síðar.
Segja má að söngferill Hreins hafi farið upp á við á síðari hluta níunda áratugarins þótt við Íslendingar yrðum lítið vör við fréttir af honum, hann hafði fasta búsetu í Minnesota um nokkurt skeið en hélt tónleika víðs vegar um Bandaríkin og m.a. söng hann á tónleikum í Carnegie Hall í New York haustið 1987 – þá hafði hann sungið á um fimmtíu tónleikum á um einu ári og var efnisskráin blönduð einsöngslögum (m.a. íslenskum) og óperuaríum.
Á tíunda áratugnum hóf Hreinn að helga sig hjálparstarfi kaþólsku kirkjunnar og samhliða því minnkaði hann nokkuð við sig í sönglistinni, hann mun þá hafa haldið um eitt hundrað einsöngstónleika víða um Bandaríkin frá upphafi áratugarins og fram á hann miðjan en dró sig meira í hlé eftir það. Á þeim tíma var hann fluttur til New York-borgar og þar átti hann eftir að búa og starfa næstu árin, og varð félagi í Mölturiddarareglunni svokölluðu en hann hafði verið vígður inn í hana árið 1993. Síðar var hann titlaður starfsmaður Sameinuðu þjóðanna fyrir regluna og sinnti því verkefni í um fimmtán ár, þá hafði hann búsetu til skiptis í New York og á Íslandi en hann hefur síðustu árin verið búsettur hér heima.
Árið 2022 kom svo út tvöföld plata – Ég lít í anda liðna tíð en hún hefur að geyma upptökur úr ýmsum áttum frá árunum 1959 til 1993, aðallega úr fórum Ríkisútvarpsins en yngstu upptökurnar voru gerðar í New York. Fyrri platan er helguð íslenskum og erlendum einsöngslögum en sú síðari geymir óperuaríur, Ólafur Vignir Albertsson er undirleikari Hreins í flestum verkanna en Fritz Weisshappel kemur þar einnig lítillega við sögu. Fremur litlar upplýsingar er að finna um þessa útgáfu.














































