Hreppakórinn (1924-57)

Hreppakórinn

Karlakór starfaði í uppsveitum Árnessýslu um liðlega þriggja áratuga skeið fram yfir miðja síðustu öld undir nafninu Hreppakórinn (einnig nefndur Karlakór Hreppamanna og Hreppamenn) en á þeim tíma voru kórar ennþá fátíðir hér á landi og einkum í dreifbýlinu.

Það var Sigurður Ágústsson frá Birtingaholti í Hrunamannahreppi sem hafði frumkvæði að stofnun kórsins haustið 1924 en hann var þá sjálfur aðeins 17 ára gamall og ómenntaður í sönglistinni. Hann stjórnaði kórnum alla tíð en í upphafi var upp tvöfaldan kvartett að ræða þar sem allir söngmennirnir voru rétt eins og Sigurður, ungir að árum. Smám saman stækkaði hópurinn og var yfirleitt skipaður um fimmtán til tuttugu söngvurum en fór mest í þrjátíu. Liðsmenn Hreppakórsins komu út tveimur hreppnum, Hrunamannahreppi og Gnúpverjahreppi en um sextíu kílómetrar voru á milli þeirra bæja þar sem lengst þurfti að fara til æfinga, meðal söngmanna voru bræðurnir Steinþór og Þorgeir Gestssynir frá Hæli en þeir gerðu garðinn frægan með MA-kvartettnum á fjórða áratugnum. Fyrst um sinn æfði kórinn á bæjum í sveitinni en þegar skóli var byggður á Flúðum árið 1929 fékk kórinn æfingaaðstöðu þar.

Hreppakórinn söng mjög fljótlega opinberlega á skemmtunum í sveitunum í kring s.s. á íþrótta- og ungmennafélagsmótum á Álfaskeiði, Ásaskóla, Þrastalundi, Bjarnarhaga, Haukadal og jafnvel austan Þjórsár í Þjórsártúni. Einnig söng kórinn á skemmtunum á Eyrarbakka, Selfossi og Skeggjastöðum í Flóa, og þegar samgöngur höfðu skánað með tilkomu herliða Breta og Bandaríkjamanna fóru Hreppamenn jafnvel í enn lengri ferðir um Suðurlandið, sungu undir Eyjafjöllunum og í Vík í Mýrdal og á Suðurnesjunum í Grindavík og Keflavík. Hreppakórinn söng iðulega án undirleikara.

Þó kórinn hafi raunverulega starfað aðeins til 1945 þar sem liðsmenn hans voru þá fluttir um víðan völl, þá söng kórinn á tónleikum allt til 1957 þegar hann virðist hafa sungið í síðasta sinn, síðustu árin söng hann í nokkur skipti í Reykjavík, m.a. í Útvarpinu og munu vera til upptökur með kórnum þar.

Sigurður átti síðar eftir að stjórna fleiri kórum, s.s. Flúðakórnum og Söngfélagi Hreppamanna.