Hreyfilskórinn [1] (1949-67)

Karlakór var starfræktur um tveggja áratuga skeið um og upp úr miðri síðustu öld innan bifreiðastöðvarinnar Hreyfils en þar störfuðu nokkur hundruð bílstjóra, kórinn gekk undir nafninu Hreyfilskórinn.

Hreyfilskórinn mun hafa verið stofnaður árið 1949 og stjórnaði Jón G. Guðnason honum fyrstu tvö árin eða til 1951 en þá tók Högni Gunnarsson við kórstjórninni og stjórnaði honum í tvö ár að minnsta kosti, Jón hafði svo aftur tekið við stjórninni 1954 en eftir það er engar upplýsingar að finna um stjórnanda hans.

Kórinn mun hafa sungið við ýmis tækifæri en mest á skemmtunum tengdum Hreyfli, s.s. árshátíðum og slíku, kórinn mun einnig hafa farið að minnsta kosti í eitt skipti í söngferðalag, það var árið 1952 þegar hann hélt tónleika í Keflavík og Sandgerði. Einnig mun kórinn hafa sungið í útvarpssal.

Hreyfilskórinn starfaði til ársins 1967 og hætti þá störfum en kvartett sem hafði starfað innan hans undir nafninu Hreyfilskvartettinn um hríð átti eftir að starfa til ársins 1970.