Hrím [2] [útgáfufyrirtæki] (1976-79)

Ingibergur Þorkelsson starfrækti um tíma útgáfufyrirtæki sem bar nafnið Hrím.

Ingibergur hafði árið 1975 starfrækt útgáfu- og umboðsfyrirtækið Demant við þriðja mann en þegar það fyrirtæki hætti störfum stofnaði hann Hrím sumarið 1976. Hrím varð reyndar hvorki afkasta- eða umsvifamikið á markaðnum en gaf um haustið út plötuna Fram og aftur um blindgötuna með Megasi, Demant hafði einmitt gefið út Millilendingu Megasar árið á undan. Ekki aðeins var platan eina raunverulega útgáfa Hríms heldur var hún einnig fyrsta platan sem hljóðrituð var á 24 rásum í Hljóðrita í Hafnarfirði en hljóðverið hafði þá nýverið stækkað.

Svo virðist sem aðeins tvær aðrar plötur hafi komið út í nafni Hríms – það voru endurútgáfur á fyrstu plötu Megasar (samnefndri honum) 1977 og plötu með upplestri Þórbergs Þórðarsonar árið 1979 sem áður hafði komið út undir merkjum Demants.