Tríóið Hrókar starfaði í um tvo áratugi og sérhæfði sig í spilamennsku tengdri einkasamkvæmum s.s. árshátíðum og þorrablótum og verður kannski helst minnst fyrir að spila hjá átthagafélögum, ekki er víst að sveitin hafi starfað alveg samfleytt en erfitt er að finna upplýsingar um sveitina þar sem hún svo oft í einkasamkvæmum.
Sveitin var stofnuð árið 1973 og virðist hafa verið skipuð nánast sama mannskapnum allan tímann, það voru þeir Sighvatur Sveinsson gítar- og hljómborðsleikari, Lárus Sigurðsson trommuleikari og Sveinn Rúnar Björnsson harmonikkuleikari. Líklega hét sveitin Hrókar alls fagnaðar en gekk yfirleitt undir nafninu Hrókar. Jónatan Ólafsson kom fram með sveitinni árið 1977 en yfirleitt var sveitin tríó þremenninganna allt þar til í lokin að Kristján Dúi Benediktsson hafði leyst Lárus trommuleikara af hólmi, svo virðist sem þeir hafi allir sungið. Hrókar störfuðu til ársins 1994.
Sem fyrr segir léku þeir Hrókar mikið á skemmtikvöldum, dansleikjum, árshátíðum og slíkum samkomum hjá átthagafélögum á höfuðborgarsvæðinu og þannig nutu slík félög Skaftfellinga, Barðstrendinga, Rangæinga, Snæfells- og Hnappdælinga, Borgfirðinga, Húnvetninga og Dýrfirðinga spilamennsku sveitarinnr en slíkar samkomur voru oft haldnar í húsi Domus Medica sem varð eins konar heimavöllur sveitarinnar. Einnig léku Hrókar einnig á þorrablótum og hjónaböllum hjá kvenfélögum, hjónaklúbbum og alls kyns félagssamtökum á borð við Hundaræktarfélag Íslands, Útivist, hestamannafélaginu Fáki, Félagi húseigenda á Spáni og Dale Carnegie svo nokkur dæmi séu nefnd. Reyndar léku þeir félagar einnig úti á landsbyggðinni sem og hjá Íslendingum í Bandaríkjunum (í New York og Washington) að minnsta kosti í tvígang.
Hrókar störfuðu til ársins 1994, þá hafði Sighvatur starfað um tíma sem eins manns hljómsveit undir nafninu Hrókur alls fagnaðar.














































