Hugh Jazz (1996-2001)

Örnólfur Thorlacius – Hugh Jazz

Tónlistarmaðurinn Örnólfur Thorlacius starfaði um nokkurra ára skeið undir aukasjálfinu Hugh Jazz en hann gaf einmitt út tímamótaplötu á Íslandi undir því nafni.

Örnólfur sem hafði orðið fyrir áhrifum frá bresku danstónlistarbylgjunni sem gekk yfir á tíunda áratugnum, var farinn að vinna drum‘n bass tónlist undir Hugh Jazz nafninu árið 1996 eða jafnvel fyrr en nafnið er sótt til Simpsons þáttaseríunnar. Í febrúar 1997 þegar hann var á menntaskólaaldri kom hann fram undir nafninu á tónleikum sem haldnir voru í Norðurkjallara Menntaskólans við Hamrahlíð en á þeim kom mikill fjöldi tónlistarmanna og hljómsveita fram. Um vorið kom svo út safnplata með upptökum frá tónleikunum sem bar nafnið Tún: tónleikaupptökur úr Norðurkjallara en á þeirri plötu var m.a. að finna lagið Anatomy of strings, sem um svipað leyti kom út á tólf tommu smáskífu með honum ásamt þremur öðrum lögum en Thule útgáfan sem þá var nýtekin til starfa gaf plötuna út. Skífan var tímamótaplata hér á landi enda var hér um að ræða fyrstu drum‘n bass plötuna sem kom út hér á landi.

Hugh Jazz fylgdi plötunni eftir um vorið og sumarið með tónleikahaldi, m.a. ásamt sveitum eins og Súrefni og Stjörnukisa og á stöðum eins og Rósenberg kjallaranum og Gauknum, og síðar sama ár kom út önnur smáskífa, tveggja laga platan Out of character.

Örnólfur hélt áfram að starfrækja sveitina undir þessu nafni næstu árin og kom reglulega fram, hér má nefna drum‘n bass tónleikana Djass á ystu nöf sem haldnir voru í tengslum við Jazzhátíð í Reykjavík árið 1998, Stefnumótakvöld Undirtóna 1999 og elektróníska tónlistarfestivalið Skjálfta sem haldið var um verslunarmannahelgina 1999 á Selfossi. Þá kom hann oft undir þessu nafni á höfuðborgarsvæðinu s.s. á Gauknum, Café Thomsen, Norðurkjallara MH og víðar.

Um aldamótin var Örnólfur farinn að vinna með mismunandi danstónlistaráherslur undir ýmsum öðrum nöfnum og smám saman var Hugh Jazz nafnið lagt til hliðar, hann kom líklega fram í síðasta sinn undir því heiti árið 2001 með þeirri undantekningu að rykið var þurrkað af nafninu á 15 ára afmælishátíð útvarpsþáttarins Skýjum ofar árið 2011.

Efni á plötum